Sjálfsmark réði úrslitum í Laugardal

Gunnar Þorsteinsson fagnar með Matt Garner eftir að skot Englendingsins …
Gunnar Þorsteinsson fagnar með Matt Garner eftir að skot Englendingsins fór í Halldór Arnarsson og þaðan í net Framara. Árni Sæberg

ÍBV vann sigur á Fram, 1:0, í 19. umferð Pepsi-deildar karla á Laugardalsvelli í kvöld. Sigurmarkið var sjálfsmark Halldórs Arnarssonar, miðvarðar Fram.

Framarar byrjuðu leikinn mun betur og létu skotin dynja á marki ÍBV en án árangurs. Haukur Baldvinsson brenndi meðal annars af algjöru dauðafæri fyrir framan mark Eyjamanna en Guðjón Orri Sigurjónsson, sem stóð vaktina í marki ÍBV í stað Davids James, varði meistaralega.

Heimamönnum var refsað fyrir að nýta ekki færin þegar Eyjamenn tóku forystuna á 32. mínútu. Matt Garner þrumaði þá boltanum í Halldór Arnarsson, miðvörð Fram, og af honum fór boltinn í netið.

Þetta reyndist eina mark leiksins og treystu Eyjamenn því stöðu sína í 6. sætinu en Fram er áfram með 19 stig í 9. sæti og getur tölfræðilega fallið niður um deild.

Í uppbótartíma fékk Viktor Bjarki Arnarsson tvö gul spjöld með eins mínútna millibili. Fyrst fyrir kjaftbrúk og svo fyrir strauja niður einn leikmann Eyjamanna. Ekki gáfulegt hjá Viktori.

Nánar verður fjallað um leikinn í Morgunblaðinu í fyrramálið en viðtöl koma inn á mbl.is síðar í kvöld.

Fram 0:1 ÍBV opna loka
90. mín. Ian Jeffs (ÍBV) á skot sem er varið Dauðafæri í teignum en Ögmundur ver.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert