Brynjar skoraði frá miðju

Brynjar Björn Gunnarsson kom KR í 2:1 með skoti frá …
Brynjar Björn Gunnarsson kom KR í 2:1 með skoti frá miðju. mbl.is/Golli

Brynjar Björn Gunnarsson, fyrrverandi landsliðsmaður, stal senunni í Frostaskjólinu í dag þegar hann skoraði glæsilegt mark frá miðju í 4:1 sigrinum á Fylki í 20. umferð Pepsí-deildarinnar í knattspyrnu. 

„Ég hafði alla vega ekki skorað af svona löngu færi áður,“ sagði Brynjar þegar Mbl.is spurði hann hvort hann hefði einhvern tíma skorað fallegra mark á ferlinum. Markið var ekki bara glæsilegt heldur einnig mikilvægt því Brynjar kom KR í 2:1 í upphafi síðari hálfleiks. Brynjar fékk boltann rétt innan miðju og lék aðeins áfram og leit upp. Lét í kjölfarið vaða á markið og boltinn sigldi yfir Bjarna Þórð Halldórsson og í markið. 

„Aðstæðurnar voru okkur í hag í síðari hálfleik og þá stóð töluverður vindur á markið við KR-heimilið. Mér fannst markvörðurinn standa nokkuð framarlega og ákvað bara að láta vaða. Það fór svona ljómandi vel. Mér fannst boltinn strax stefna á markið en fannst á tímabili að hann gæti jafnvel verið að fara yfir markið en inn fór hann og það var frábært. Fyrst að þeir náðu að jafna 1:1 í fyrri hálfleik þá var mjög gott að komast aftur yfir tiltölulega snemma í síðari hálfleik. Við vorum svolítið með leikinn í okkar höndum eftir þetta og bættum við tveimur frábærum mörkum sem gulltryggðu sigurinn,“ sagði Brynjar Björn Gunnarsson í samtali við Mbl.is. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert