Ólafur H. Kristjánsson þjálfari Breiðabliks var að vonum ósáttur með tap sinna manna gegn Fram á heimavelli í kvöld og með tapinu dvínuðu möguleikar Blikanna á að ná Evrópusæti til mikilla muna.
„Uppskeran er rýr þessa dagana. Loftið hefur verið að fara úr blöðrunni hjá okkur. Við höfum spilað allt í lagi úti á vellinum en við nýtum ekki færin og fáum á okkur mörk. Miðað við hvernig við spilum þessa dagana erum við ekki á leiðinni að ná Evrópusæti,“ sagði Ólafur við mbl.is en nánar er rætt við hann í myndskeiðinu.