Kr-ingar geta tryggt sér Íslandsmeistaratitil karla í knattspyrnu í 26. sinn í dag þegar þeir heimsækja Breiðablik á Kópavogsvöllinn. Viðureign liðanna hefst klukkan 17 og aðgangur er ókeypis þar sem þetta er leikurinn sem þurfti að hætta eftir nokkurra mínútna leik í síðasta mánuði þegar Elfar Árni Aðalsteinsson, sóknarmaður Breiðabliks, fékk þungt höfuðhögg.
Óhætt er að setja að staða KR-inga sé vænleg því þeir þurfa aðeins tvö stig úr síðustu fjórum leikjum sínum til að Íslandsbikarinn sé þeirra. KR er með fimm stiga forskot á FH og á að auki tvo frestaða leiki til góða.
Með sigri í dag verður KR því meistari. Jafntefli þýðir að FH getur enn náð sama stigafjölda, og unnið upp sjö mörk með því að vinna sína tvo leiki ef KR tapar síðustu þremur.
Breiðablik hefur líka að miklu að keppa því þetta er síðasta hálmstrá Kópavogsliðsins, ætli það að eygja von um að ná þriðja sætinu og keppnisrétti í Evrópudeild UEFA.
Breiðablik er með 33 stig og á þrjá leiki eftir en Stjarnan er með 40 stig í þriðja sætinu og á tvo leiki eftir. Vinni Blikar í dag er enn allt opið í þeirri baráttu því þeir mæta Stjörnunni í næstsíðustu umferðinni á sunnudaginn.