Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta tapaði í kvöld fyrsta leik sínum í undankeppni HM 2015 gegn sterku liði Sviss á Laugardalsvelli, 2:0. Leikurinn var sá fyrsti undir stjórn nýs landsliðsþjálfara, Freys Alexanderssonar.
Jafnræði var með liðunum til að byrja með og komust bæði Hólmfríður Magnúsdóttir og Dagný Brynjarsdóttir í ágætis færi til að koma Íslandi yfir áður en Sviss tók forystuna á 9. mínútu leiksins.
Það gerði hin magnaða Ramona Bachman, samherji Söru Bjarkar og Þóru Helgadóttur hjá Malmöu í Svíþjóð, með skoti hægra megin úr teignum sem Guðbjörg Gunnarsdóttir missti undir sig. Ramona stakk sér á milli varnarmanna Íslands og náði skoti sem Guðbjörg hefði líklega átt að verja.
Gestirnir voru mun betri í leiknum og settu pressu framarlega á íslensku stúlkurnar sem þeim gekk illa að leysa. Sviss fékk færi til að bæta við mörkum en nýtingin var sem betur fer ekki góð.
Sviss bætti þó við marki á 54. mínútu úr vítaspyrnu sem dæmd var þegar Glódís Perla Viggósdóttir fékk bylmingsskot gestanna í höndina. Lara Dickenmann skoraði örugglega úr vítinu en í aðdraganda þess fór Bachman illa með íslensku vörnina eins og svo oft áður í leiknum.
Fleiri mörk voru ekki skoruð og byrjar Ísland því undankeppnina á tapi. Aðeins eitt lið úr riðlinum fer beint á HM og ekki öll sem lenda í 2. sæti í umspil þannig um fá sæti er barist og svona tap því dýrt.
Nánari umfjöllun verður um leikinn í Morgunblaðinu í fyrramálið en viðtöl koma inn á mbl.is síðar í kvöld. Fylgst var með leiknum í beinni textalýsingu og má lesa hana hér að neðan.
Ísland: (4-3-3) Mark: Guðbjörg Gunnarsdóttir. Vörn: Anna María Baldursdóttir, Glódís Perla Viggósdóttir, Katrín Jónsdóttir, Ólína G. Viðarsdóttir. Miðja: Sara Björk Gunnarsdóttir, Dagný Brynjarsdóttir, Dóra María Lárusdóttir. Sókn: Hólmfríður Magnúsdóttir, Margrét Lára Viðarsdóttir, Hallbera G. Gísladóttir.
Varamenn: Þóra B. Helgadóttir. (M), Katrín Ómarsdóttir, Anna Björk Kristjánsdóttir, Harpa Þorsteinsdóttir, Ásgerður S. Baldursdóttir, Fanndís Friðriksdóttir, Rakel Hönnudóttir.
Sviss: (4-4-2) Mark: Gaelle Thalmann . Vörn: Fabienne Humm, Caroline Abbé, Rahel Kiwic, Noelle Maritz.Miðja: Vanessa Bürki, Lia Walti, Vanessa Bernauer, Ana Maria Crnogorcevic. Sókn: Lara Dickenmann, Ramona Bachmann.
Varamenn: Stenia Michel. (M), Sandra Betschart, Selina Kuster, Martina Moser, Sandy Maendly, Eseosa Aigbogun, Fabienne Bangerter.