Breiðablik sigraði Keflavík, 3:2, í lokaleik sínum á Íslandsmótinu knattspyrnu þegar liðin mættust á Kópavogsvellinum í dag.
Ellert Hreinsson kom Blikum yfir á 11. mínútu en Keflavík svaraði með mörkum frá Elíasi Má Ómarssyni og Bojan Stefáni Ljubicic áður en Árni Vilhjálmsson jafnaði fyrir Blika á 37. mínútu. Staðan var því 2:2 í hálfleik.
Blikar gerðu tvöfalda skiptingu í hálfleik, og inná komu Tómas Óli Garðarsson og Viggó Kristjánsson. Seinni hálfleikur einkenndist af mikilli baráttu en Blikar voru sterkari og sigurmark þeirra kom á 85. mínútu þegar Guðjón Pétur Lýðsson skoraði úr vítaspyrnu.
Breiðablik endaði því tímabilið í 4. sæti sem hljóta að vera vonbrigði þar sem þeir gáfu út fyrir tímabilið að þeir ætluðu sér að vera í titilbaráttu og tryggja sér sæti í Evrópukeppni á næsta ári. Keflvíkingar enduðu í 9. sæti og má svo sem segja að lokastaðan sé á pari við spá spekinga fyrir tímabilið.