Rúrik Gíslason leikmaður FC Köbenhavn og Ari Freyr Skúlason leikmaður OB eru í liði umferðarinnar hjá danska blaðinu Tipsbladet fyrir frammistöðu sína með liðum sínum um síðustu helgi.
Rúrik er einn þriggja sóknarmanna í liði umferðarinnar en hann skoraði fyrra mark liðsins í sigri gegn SönderjyskE með glæsilegu skoti.
Ari Frey er einn af fjórum miðjumönnum í liðinu en Ari hefur spilað inni á miðjunni með OB-liðinu þó svo að hann hafi verið fenginn til liðsins sem vinstri bakvörður.
Bæði Rúrik og Ari Freyr eru í íslenska landsliðshópnum sem býr sig nú undir leikinn gegn Kýpur á Laugardalsvellinum á föstudaginn.