Kýpur engin fyrirstaða fyrir Ísland

Ísland vann öruggan og sanngjarnan sigur á Kýpur, 2:0, í undankeppni HM 2014 á Laugardalsvelli í kvöld. Kolbeinn Sigþórsson og Gylfi Þór Sigurðsson skoruðu mörk Íslands í seinni hálfleik en nú er ljóst að sigur í Noregi á þriðjudaginn tryggir okkur sæti í umspili fyrir HM í Brasilíu.

Yfirburðir íslenska liðsins voru algjörir í leiknum en það spilaði frábæran fótbolta, bæði í sókn og vörn. Frá fyrstu mínútu voru gestirnir pressaðar aftur að sínu eigin marki og þeim gert erfitt fyrir.

Kýpverjar voru þó erfiðir að brjóta á bak aftur eins og svo oft áður. Birkir Bjarnason fékk tvö algjör dauðafæri í fyrri hálfleik sem honum tókst ekki að nýta en Birkir hefði hæglega getað skorað þrennu í kvöld. Framlag hans og frammistaða á vellinum var þó mögnuð að vanda.

Það var ljóst frá byrjun að það yrði þolinmæðisverk að skora gegn ólseigum Kýpverjum en strákarnir okkar héldu haus og byggðu upp sóknir rólega frá aftasta manni ef þess þurfti. Margar frábærar rispur sáust og voru gestirnir ótt og títt spilaðir sundur og saman.

Loks komu mörkin

Það var á 60. mínútu sem Kolbeinn Sigþórsson braut ísinn með fyrra marki leiksins. Jóhann Berg Guðmundsson átti þá skot af stuttu færi sem markvörður Kýpverja varði en Kolbeinn hirti frákastið og þrumaði boltanum í markið af stuttu færi. Tólfta landsliðsmark Kolbeins í 18 leikjum. Stórbrotin tölfræði.

Rétt rúmum 15 mínútum síðar gekk Ísland svo frá leiknum með öðru marki. Birkir Bjarnason átti þá enn eitt skotið á markið en markvörður gestanna varði en Gylfi Þór Sigurðsson tróð boltanum yfir línuna með aðstoð varnarmanns Kýpur, 2:0.

Eftir það tók Lagerbäck Aron Einar og Gylfa Þór af velli til að hvíla þá fyrir leikinn gegn Noregi. Sigurinn var aldrei í hættu því það voru ekki bara framherjarnir sem spiluðu vel heldur einnig varnarlínan sem var virkilega öflug með Ragnar Sigurðsson í fantaformi.

Ísland hefði átt að skora fleiri mörk og þá sérstaklega á 90. mínútu þegar markvörður Kýpverja varði þrjú skot í röð frá Birki, Jóhanni og Kolbeini. Klúður Kolbeins var það skrautlegasta en þó verður að hrósa markverðinum.

Engin spjöld

Stemningin í Laugardalnum var mögnuð í kvöld enda fullur völlur og lét fólkið vel í sér heyra. Íslenska liðið þakkaði fyrir sig með einni bestu frammistöðu sem sést hefur lengi á Laugardalsvellinum en Kýpur átti hreinlega ekki möguleika í kvöld. Þannig er það bara.

Kirsuberið ofan á kökuna er svo, að Ísland fékk engin gul spjöld í leiknum en fyrir hann voru átta á hættusvæði. Hafi allir komist heilir í gegnum leikinn geta landsliðsþjálfararnir því valið sitt sterkasta lið gegn Noregi á þriðjudaginn.

Staðan er nú einfaldlega þannig að sigur í Osló á þriðjudaginn tryggir Íslandi sæti í umspilinu og jafntefli dugir svo lengi sem Slóvenar vinna ekki Sviss.

Nánari umfjöllun um leikinn má lesa í Morgunblaðinu í fyrramálið en viðtöl koma inn á mbl.is síðar í kvöld. Fylgst var með leiknum í beinni textalýsingu en hana má lesa hér að neðan.

Myndirnar hér að ofan tóku Eggert Jóhannesson og Kristinn Ingvarsson, ljósmyndarar Morgunblaðsins.

Ísland 2:0 Kýpur opna loka
90. mín. Birkir Bjarnason (Ísland) á skot sem er varið Þrumuskot af 25 metra færi sem markvörðurinn ver beint í fætur Jóhanns Bergs...
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert