Lars ánægður með einbeitinguna

„Leikurinn spilaðist eins og við bjuggumst við. Við undirbjuggum okkur undir erfiðan leik enda þeir eru með lið sem erfitt er að brjóta niður, " sagði landsliðsþjálfarinn Lars Lagerbäck á blaðamannafundi eftir 2:0 sigurinn gegn Kýpur.

Hann var sáttur við liðsheildina og var hvergi banginn þó mörkin hafi látið bíða eftir sér. „Spilamennska okkar var ekki á sama plani og á móti Albaníu en hér stjórnuðum við leiknum allan tímann og skoruðum tvö góð mörk. Það er alltaf spenna ef við skorum ekki í fyrri hálfleik en ég verð að hrósa leikmönnunum fyrir að halda einbeitingu og fóru ekki fram úr sjálfum sér. Mörkin skiluðu sér og frammistaðan í heild var mjög góð þó spilamennskan hafi ekki verið eins og hún gerist best,“ sagði Lars og tók Heimir Hallgrímsson, aðstoðarþjálfari liðsins undir það.

Héldu ró sinni

„Þetta er klárlega ekki okkar besti leikur en leikmennirnir héldu alltaf áfram, voru þolinmóðir. Hraðinn í okkar leik var ekki alveg nógu góður í fyrri hálfleik en það breyttist eftir hlé og þegar við uppskárum þetta fyrsta mark létti mikið á liðinu.“

En hvernig var stemningin í hálfleik í stöðunni 0:0, var komið stress í mannskapinn?

„Leikmennirnir voru rólegir í hálfleik. Við höfðum ekki mikið út á frammistöðuna í fyrri hálfleik að setja nema það að auka hraðann í okkar spili þar sem það er besta leiðin til þess að brjóta niður andstæðinginn. Leikmennirnir héldu ró sinni og einbeitingu enda var uppskeran eftir því,“ sagði Lars.

Liðsmenn Kýpur vildu fá vítaspyrnu í síðari hálfleik en fengu þess í stað gult spjald fyrir leikaraskap. Þjálfararnir voru þó ekki á því að hjartað hafi tekið auka slag á þeim tímapunkti. „Dómarinn var fljótur að dæma svo hann hefur verið viss í sinni sök. Við vitum að þeir láta sig aðeins detta svo við vorum ekki hræddir við þetta atvik,“ sagði Heimir.

Gott að fá ekkert gult spjald

Íslenska liðið hélt marki sínu hreinu og sagði Lars það sérstaklega ánægjulegt auk þess að fara í gegnum leikinn án spjalds. „Það var einnig gott að við fengum ekkert gult spjald, en þetta er fyrsti leikurinn í undankeppninni sem við fáum ekki spjald svo það er gríðarlega jákvætt. Þeir reyndu heldur ekki mikið á okkur og ég heyrði að staðan hefði verið 22:2 í marktilraunum svo Hannes átti rólegan dag í markinu. Þeir náðu nokkrum fyrirgjöfum en sköpuðu enga raunverulega hættu. Vörnin hafði ekki mikið að gera en það er alltaf erfitt að ná að halda einbeitingu í þeirri stöðu svo vörnin í heild gerði vel í leiknum.“

Nokkrir leikmenn urðu fyrir hnjaski í leiknum og þurftu þeir Aron Einar og Gylfi að fara af velli. „Aron fékk högg á mjöðmina en ég held að það sé ekkert alvarlegt. Hann lenti í návígi og stífnaði aðeins upp en ég vona að það sé ekkert alvarlegt. Gylfi fann til í fætinum og virtist hafa teygt sig aðeins of mikið í fyrri hálfleik og við tókum hann af velli í varúðarskyni. En ég vona að það sé ekkert alvarlegt,“ sagði Lars, en staðan á Ólafi Inga Skúlasyni er öllu verri.

„Hann verður ekki með á móti Noregi og fer aftur í herbúðir síns liðs á sunnudag,“ sagði Lars, en aðspurður hvort hann mundi kalla upp mann í hópinn í sagði hann það vera alls óvíst. „Við höfum breiðan hóp. Við metum stöðuna á morgun, hvort menn séu heilir eftir leikinn og ákveðum þá hvort við köllum inn mann fyrir Ólaf.“

Verðum að stefna á sigur

Næsti leikur er gegn Noregi ytra á þriðjudag. Lið Noregs er úr leik í baráttunni um umspilssæti en Lars sagði það ekki breyta því hvernig liðið mætir til leiks.

„Við verðum að stefna á sigur en við getum líka treyst á önnur úrslit. Það verður kannski til þess að við spilum af meiri varkárni en markmiðið verður án ef að sækja sigur. Nú tekur við undirbúningur fyrir þann leik strax á morgun þar sem þeir sem léku meira en 60 mínútur fara í endurhæfingu eftir leikinn en aðrir munu æfa. Við tökum svo aðra æfingu hér á sunnudag áður en við fljúgum til Osló seinni partinn á sunnudag. Við tökum svo æfingu fyrir hádegi á mánudag í Noregi,“ sagði Lars.

En fá leikmenn svigrúm í kvöld til þess að fagna sigrinum?

„Leikmennirnir eru ekki frjálsir í kvöld. Við borðum saman á hótelinu og einhverjir þurfa örugglega einhverja meðhöndlun eftir leikinn. En menn þurfa að slaka á, ná góðum nætursvefni og hlaða batteríin fyrir leikinn gegn Noregi á þriðjudag,“ sagði Lars.

„Við munum eflaust horfa á leik Noregs við Slóveníu sem fram fór í kvöld,“ skaut Heimir inn í. „Já, ef við förum ekki í bæinn!“ sagði Lars að lokum, en undirstrikaði að það væri einungis grín – þjálfararnir fengu ekki heldur frí í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert