„Hann er mjög faglegur leikmenn bera mikla virðingu fyrir honum,“ segir landsliðsmaðurinn Helgi Valur Daníelsson við sænska netmiðilinn fotbollskanalen þegar hann var inntur álits á Svíanum Lars Lagerbäck þjálfara íslenska karlandsliðsins í knattspyrnu.
Svíar hafa fylgst grannt með framgangi Lagerbäck á Íslandi en hann þjálfaði lið Svía með góðum árangri frá 2000 til 2009 en undir hans stjórn komust Svíar í úrslitakeppni EM og HM.
„Við höfum haft íslenska þjálfara og þeir hafa ekki verið á jafn háu stigi og Lars. Honum hefur tekist að breyta miklu til hins betra. Það er allt orðið miklu faglegra í kringum landsliðið og hann hefur fengið knattspyrnusambandið til að gera hluti sem það hefur ekki gert áður.
Þetta er orðið í líkingu við það sem leikmenn hafa vanist en við eigum marga leikmenn sem spila í Evrópu og sumir þeirra hjá stórum félögum. Það hefur skapast mjög gott andrúmsloft með tilkomu Lars og það er miklu meiri stemning í kringum landsliðið en áður,“ segir Helgi Valur.