Logi Ólafsson er ekki lengur við stjórnvölinn hjá Stjörnunni en hann fékk reisupassann um helgina. Logi tók við þjálfun Garðarbæjarliðsins í fyrra og undir hans stjórn náði félagið sínum besta árangri í sögunni en Stjarnan endaði í þriðja sæti og leikur í Evrópukeppninni að ári í fyrsta sinn.
Forráðamenn Stjörnunnar settu sig í samband við Heimi Hallgrímsson, sem gaf afsvar, en ekki er ljóst hver er næstur á blaði. Sigurður Ragnar Eyjólfsson, Þorlákur Árnason og Rúnar Páll Sigmundsson hafa verið nefndir á nafn en það ætti að skýrast í vikunni hver verður eftirmaður Loga.
„Þessi ákvörðun kom mér algjörlega í opna skjöldu. Eftir að við höfðum náð þessum sögulega árangri á tímabilinu virtist mér allt leika í lyndi og menn virkilega ánægðir,“ sagði Logi við Morgunblaðið í gær.
„Nokkrum dögum eftir lokahóf okkar var farið yfir gang mála og skoðað hvað mætti betur fara. Leikmannaráðið hélt fund eftir það og eftir því sem ég hef heyrt þaðan var það ekki þar sem kom fram að það ætti að fara að skipta um þjálfara. Ég hef líka átt samtal við nokkra leikmenn sem kannast ekki við það að þeir hafi verið að bera á borð einhverja óánægju leikmanna,“ segir Logi í viðtali við Morgunblaðið.
Ítarlegt viðtal við Loga um brottreksturinn má finna í Morgunblaðinu í dag.