Ísland er komið í umspil um sæti í lokakeppni HM í knattspyrnu í fyrsta sinn eftir að hafa gert jafntefli við Noreg á Ullevaal í lokaumferð riðlakeppninnar í kvöld, 1:1. Ísland endaði í 2. sæti riðilsins, tveimur stigum fyrir ofan Slóveníu sem tapaði fyrir Sviss.
Norðmenn hófu leikinn af miklum krafti og það var eins og taugaskjálfti gerði íslenska liðinu erfitt um vik fyrstu mínúturnar. En upp úr fyrsta almennilega samspilskaflanum, sem var reyndar frábær, kom mark frá Kolbeini Sigþórssyni á 12. mínútu. Gylfi Þór Sigurðsson átti fasta sendingu af miðjum vallarhelmingi Noregs inn á Kolbein sem hafði losað sig frá varnarmönnum og skoraði.
Heimamenn jöfnuðu metin á 30. mínútu þegar Daniel Braaten slapp einn inn fyrir vörn íslenska liðsins og skoraði. Íslenska vörnin var á hælunum í markinu en Braaten gerði vel í að halda Ragnari Sigurðssyni, liðsfélaga sínum hjá FCK, aftur af sér.
Eiður Smári Guðjohnsen fékk dauðafæri til að koma Íslandi yfir á nýjan leik eftir tæplega korters leik í seinni hálfleik en skot hans var varið. Alfreð Finnbogason leysti hann af hólmi í kjölfarið. Skömmu síðar kom Birkir Bjarnason sér í annað dauðafæri en aftur varði Rune Jarstein.
Norðmenn voru meira með boltann á lokakafla leiksins en Íslendingar sköpuðu sér hættulegri færi. Fleiri mörk voru þó ekki skoruð og niðurstaðan 1:1-jafntefli.
Íslensku leikmennirnir voru rólegir í leikslok enda ekki enn búið að flauta af leik Sviss og Slóveníu, þar sem Slóvenía hefði náð 2. sæti með sigri. Þegar úrslitin þar voru ljós brutust hins vegar út gríðarleg fagnaðarlæti sem eflaust lifa fram á nótt hér í Ósló.