Hewson genginn til liðs FH

Sam Hewson er farinn frá Fram til FH eins og …
Sam Hewson er farinn frá Fram til FH eins og Sam Tillen gerði í fyrra. mbl.is/Golli

Enski miðjumaðurinn Sam Hewson er genginn til liðs við FH og hefur skrifað undir tveggja ára samning við liðið. Þetta kemur fram á fh.ingar.net.

Hewson, sem lék með unglingaliði Manchester United á árum áður, kemur til FH frá Fram en hann hefur leikið með Safamýrarliðinu frá miðju tímabili 2011. Hann lék 20 leiki með Frömurum í Pepsi-deildinni í sumar. Honum tókst ekki að skora en var duglegur að safna spjöldum en hann fékk átta sinnum að líta gula spjaldið.

Hewson er þriðji leikmaðurinn sem Framarar missa frá sér á skömmum tíma en í gær skrifaði Almarr Ormarsson undir samning við KR og fyrr í vikunni yfirgaf Kristján Ingi Halldórsson Framara og gekk til liðs við Val. Ekki góð tíðindi fyrir nýjan þjálfara Framara, Bjarna Guðjónsson, enda hafa þeir Almarr, Hewson og Kristján Ingi verið í stórum hlutverkum hjá Fram undanfarin ár.

Hewson er fyrsti leikmaðurinn sem FH-ingar bæta við sig fyrir næstu leiktíð en Heimir Guðjónsson þjálfari Hafnarfjarðarliðsins hefur sagt að FH þurfi 3-4 nýja leikmenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka