Ísland mætir Króatíu í umspilinu

Örlög Íslands ráðast endanlega í Zagreb 19. nóvember.
Örlög Íslands ráðast endanlega í Zagreb 19. nóvember. mbl.is/Eva Björk

Ísland mætir Króatíu í umspili um laust sæti á HM 2014 í Brasilíu næsta sumar en dregið var í umspilsleikina fjóra í Zürich í dag. Ísland leikur fyrri leikinn heima 15. nóvember en síðari leikurinn fer fram í Zagreb þriðjudaginn 19. nóvember.

Ísland og Króatía var síðasti leikurinn sem dregið var um og kom Ísland upp úr pottinum á undan sem þýðir að við fáum heimaleikinn á undan. Liðið fær því vissulega góðan fimm daga undirbúning á Íslandi fyrir fyrri leikinn en það er alltaf erfitt að eiga síðari leikinn eftir á erfiðum útivelli.

Portúgal og Svíþjóð mætast þannig að ljóst er að annaðhvort Zlatan eða Ronaldo verða ekki á HM næsta sumar. Úkraínumenn eiga erfitt verkefni fyrir höndum gegn Frakklandi og þá eigast við Grikkland og Rúmenía.

Leikirnir í umspilinu:

Portúgal - Svíþjóð

Úkraína - Frakkland

Grikkland - Rúmenía

Króatía - Ísland

---

12.13 Ísland kemur á undan Króatíu upp úr pottinum og fær því heimaleik föstudaginn 15. nóvember en síðari leikurinn fer fram þriðjudaginn 19. nóvember í Zagreb.

12.13 Grikkir fá Rúmena og leika fyrri leikinn heima sem þýðir að Ísland mætir Króatíu.

12.12 Úkraína mætir Frakklandi og Frakkar fá seinni leikinn heima.

12.11 Portúgal kemur fyrst upp úr pottinum og mætir Svíþjóð. Portúgal leikur fyrri leikinn heima.

12.10 Drátturinn hefst!

12.09 Tveir boltar eru dregnir hvor úr sinni skálinni og þeir settir í aðra tóma skál. Það lið sem dregið er fyrst úr þeirri skál leikur heimaleikinn 15. nóvember en síðara liðið fær heimaleikinn 19. nóvember.

12.06 Svisslendingurinn Alexander Frei mætir til leiks en hann aðstoðar við dráttinn í dag. Frei spilaði á sínum ferli m.a. með Dortmund og Basel og er markahæsti leikmaður svissneska landsliðsins frá upphafi.

12.03 Myndbrot frá leikjum allra liðanna átta eru sýnd. Ekki leiðinlegt að sjá Alfreð Finnbogason fara einan í gegn gegn Noregi í fyrsta leiknum. Þar hófst þetta ævintýri allt saman.

12.00 Veislan er byrjuð í Zürich. Fyrst er farið yfir helstu formsatriðin eins og hvernig er staðið er að drættinum og hvenær liðin spila. Þjálfarar liðanna eru boðnir sérstaklega velkomnir.

11.50 Eins og kom fram í laugardagsblaði Morgunblaðsins gæti Króatía verið fýsilegri kostur sem mótherji en til dæmis Úkraína. Króatar hafa undanfarna tvo áratugi átt gríðarlega öflugt fótboltalandslið en á þessu ári hefur því ekki gengið svo vel. Það hefur aðeins unnið tvo af síðustu sjö landsleikjum sínum og var að skipta um þjálfara eftir riðlakeppnina. Úkraína aftur á móti hefur ekki tapað leik á árinu undir stjórn nýs þjálfara. 

11.45 Verið er að gera allt klárt í Zürich fyrir dráttinn sem hefst klukkan 12.00. Mikið er rætt og ritað um hvaða lið henti Íslandi best að fá og eru flestir sammála um að skauta framhjá Portúgal.

Efri styrkleikaflokkur: Portúgal (14), Grikkland (15), Króatía (18), Úkraína (20)
Neðri styrkleikaflokkur: Frakkland (21), Svíþjóð (25), Rúmenía (29), Ísland (46) 

Ísland var sjöunda liðið upp úr pottinum.
Ísland var sjöunda liðið upp úr pottinum. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert