Sölukerfi Miða.is er sett upp til að þola gríðarlegt álag og þótt allir miðarnir á leik Íslands og Króatíu hafi selst upp á tæpum 4 klukkutímum komu engir hnökrar upp í kerfinu, segir í yfirlýsingu frá Miða.is.
Miði.is tók að sér að selja miða á landsleik Íslands og Króatíu eins og aðra landsleiki fyrir KSÍ. „Ákvörðun um hvenær miðarnir færu í sölu var alfarið á höndum KSÍ,“ segir í yfirlýsingunni sem Ólafur Thorarensen, framkvæmdastjóri Miði.is, skrifar undir.
„Sölukerfi Miði.is er sett upp til að þola gríðarlegt álag og þótt allir miðarnir á leikinn hafi selst upp á tæpum 4 klukkutímum komu engir hnökrar upp í kerfinu.
Miði.is er bundinn trúnaði við KSÍ og getur engar upplýsingar gefið um fjölda miða eða annað sem snýr að miðasölu á þennan landsleik,“ segir í yfirlýsingunni.