Brynjar Björn Gunnarsson, fyrrum landsliðsmaður í knattspyrnu, hefur verið leystur undan samningi við KR-inga, en þeir staðfestu það á vef sínum í kvöld. Ástæðan er sögð áhugaverð tækifæri í þjálfun en Brynjar er að óbreyttu á leið til Stjörnunnar sem aðstoðarþjálfari.
Þar mun hann taka við starfi Rúnars Páls Sigmundssonar, sem á dögunum tók við sem aðalþjálfari Stjörnunnar af Loga Ólafssyni, en Loga var sagt upp störfum um miðjan síðasta mánuð.
Brynjar, sem er 38 ára gamall, kom heim síðasta vor eftir sextán ár í atvinnumennsku og lék með KR í sumar, þar sem hann hampaði Íslandsmeistaratitlinum í haust. Hann mun væntanlega ekki spila með Stjörnunni, heldur einbeita sér að þjálfuninni.