Þrátt fyrir að leika manni færri síðustu 40 mínútur leiksins náði íslenska landsliðið í fótbolta hetjulegu jafntefli gegn Króatíu, 0:0, í fyrri leik liðanna í HM-umspilinu á Laugardalsvelli í kvöld.
Leikurinn byrjaði afar fjörlega en eftir rétt tæpa mínútu komst Eduardo, framherji Króatíu, í dauðafæri vinstra megin í teignum. Skot hans fór í varnarmann en stefndi í netið áður en Ari Freyr Skúlason bjargaði á marklínu.
Hinum megin komst Alfreð Finnbogason í dauðafæri tæpri mínútu síðar eftir undirbúning Birkis Bjarnasonar en Vedran Corluka komst í veg fyrir skot Alfreðs.
Eftir það róaðist leikurinn töluvert og skiptust liðin á að vera með boltann og byggja upp sóknir. Króatar reyndu mikið að fara bakvið Ólaf Inga Skúlason sem leysti Birki Bjarnason af í vinstri bakverðinum og fengu gestirnir fyrirgjafir sem ekki virkuðu í fyrri hálfleik.
Þegar ekki nema tvær og hálf mínúta var eftir af fyrri hálf varð íslenska liðið fyrir áfalli þegar Kolbeinn Sigþórsson féll niður við enga snertingu og virtist grípa um ökklann. Sjúkrateymi Íslands var ekki lengi að biðja um skiptingu og Kolbeinn borinn af velli um leið. Eiður Smári leysti hann af velli í byrjun seinni hálfleiks.
Ekki skánuðu hlutirnir í byrjun síðari hálfleiks þegar Ólafur Ingi Skúlason var rekinn af velli fyrir að rífa niður Ivan Perisic sem virtist sloppinn í gegn. Snertingin var ekki mikil en ákvörðun spænska dómarans Albertos Undianos í takt við annað sem hann bauð upp á í kvöld. Arfadöpur frammistaða hjá Spánverjanum.
Eðli málsins samkvæmt sóttu Króatar nær látlaust manni fleiri en íslenska liðið bauð upp á eina hetjulegustu frammistöðu síðari ára. Miðverðirnir voru magnaðir, Hannes traustur í markinu og allt liðið varðist sem heild. Alveg mögnuð úrslit í ljósi þess hver staðan var.
Liðin mætast aftur í Zagreb á þriðjudagskvöldið en þar dugar hvaða jafntefli sem er Íslandi til að komast áfram svo lengi sem skoruð verða mörk.
Fylgst var með leiknum í beinni textalýsingu hér á mbl.is en hana má lesa hér að neðan. Myndbandsviðtöl koma inn á mbl.is síðar í kvöld og í fyrramálið verður nánari umfjöllun í Morgunblaðinu.
Ísland | 0:0 | Króatía | Opna lýsingu Loka | |
---|---|---|---|---|
90. mín. Ivan Rakitic (Króatía) á skot framhjá | ||||
Augnablik — sæki gögn... |