Það kemur í ljós síðar í dag, líklega tveimur tímum fyrir leik, hvaða leikmaður leysir Birki Má Sævarsson af sem hægri bakvörður gegn Króatíu. Birkir lék alla leiki Íslands í undanriðlinum fyrir HM en missir af fyrri umspilsleiknum vegna leikbanns.
Menn hafa velt vöngum yfir því alla vikuna hver muni leika sem hægri bakvörður og svo virðist sem Hallgrímur Jónasson og Ólafur Ingi Skúlason séu líklegastir til þess. Lars Lagerbäck vildi ekki gefa það upp á fréttamannafundi í gær hver yrði fyrir valinu en svaraði svona, aðspurður eftir hverju hann færi við valið:
„Við viljum nota mann sem getur aðlagast stöðunni hratt enda höfum við notað Birki Má í öllum leikjum undankeppninnar. Það er mikilvægt að hann skilji til hvers við ætlumst af bakverði í okkar liði. Hann þarf að geta sótt fram á við en mikilvægast er að hann verjist vel og skilji hvernig við verjumst,“ sagði Lagerbäck.
Mbl.is spurði Heimi Hallgrímsson aðstoðarþjálfara einnig út í málið, og hvort það væri ekki óheppileg staða að hafa engan hreinræktaðan hægri bakvörð til taks í landsliðshópnum, utan Birkis Más.
„Þetta er svolítið sérstakt. Bakvarðastöðurnar eru tvær af 11 á vellinum en við eigum eiginlega enga leikmenn sem spila erlendis í þessum stöðum. Meira að segja í Pepsi-deildinni hér heima eru margir erlendir leikmenn að spila bakvarðastöðurnar. Við breytum þessu ekki í dag en þurfum virkilega að skoða þessi mál,“ sagði Heimir.