Sjónvarpsmaðurinn Sverrir Þór Sverrisson, Sveppi, segir að vinur sinn Eiður Smári Guðjohnsen byrji á varamannabekknum í kvöld þegar Ísland mætir Króatíu í fyrri umspilsleik þjóðanna um sæti á HM í Brasilíu.
Þetta sagði Sveppi í útvarpsþættinum Fótbolta.net á X-inu í dag. Hann sagðist hafa rætt málin við Eið yfir kaffibolla í morgun.
Eiður Smári hefur verið í byrjunarliði Íslands í síðustu leikjum eftir góða innkomu í 4:4-jafnteflinu við Sviss ytra. Alfreð Finnbogason hefur því verið á varamannabekknum en Alfreð verður í byrjunarliðinu í kvöld að sögn Sveppa.
Byrjunarliðið verður tilkynnt síðar í dag en helsta spurningin hefur snúið að því hver leysi stöðu hægri bakvarðar í fjarveru Birkis Más Sævarssonar. Ólafur Ingi Skúlason og Hallgrímur Jónasson þykja helst koma til greina.