Enn von fyrir Kolbein - Unnið í alla nótt

Kolbeinn Sigþórsson var borinn af velli skömmu fyrir lok fyrri …
Kolbeinn Sigþórsson var borinn af velli skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks í gær. Enn er þó von um að hann spili seinni leikinn. mbl.is/Eggert

Kolbeinn Sigþórsson er kominn í kapphlaup við tímann um að ná seinni umspilsleiknum við Króata á þriðjudagskvöld, um sæti á HM í Brasilíu. Meiðsli hans eru mun vægari en talið var í fyrstu.

„Þetta leit mun verr út þegar þetta gerðist,“ sagði Andri Sigþórsson bróðir Kolbeins við mbl.is rétt í þessu. Kolbeinn sneri illa upp á ökkla undir lok fyrri hálfleiks og var borinn af velli en að sögn Andra sýna myndatökur að hvorki sé um brot eða liðbandaslit að ræða.

„Það er verið að meðhöndla hann á fullu. Það hefur verið unnið í því í alla nótt og í morgun að ná niður bólgunum og nú eru menn byrjaðir að liðka á honum fótinn. Ætlunin er að láta hann stíga í fótinn og hreyfa sig í dag. Þetta ræðst mikið út frá því hvernig það kemur út,“ sagði Andri.

„Eftir það vitum við betur hvort það sé einhver möguleiki þá á að hann spili á þriðjudaginn. Á meðan að þetta eru bólgur og tognun þá er þetta kapphlaup við klukkuna,“ bætti hann við.

Enn er því von um að markahrókurinn spili mikilvægasta leik í sögu íslenska landsliðsins á þriðjudagskvöld í Zagreb.

Kolbeinn hafði átt góðan leik að vanda áður en hann …
Kolbeinn hafði átt góðan leik að vanda áður en hann meiddist. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert