Kolbeinn Sigþórsson ferðast ekki með íslenska landsliðinu til Króatíu í dag vegna þeirra meiðsla sem hann varð fyrir í fyrri leik liðanna á Laugardalsvelli á föstudag.
Kolbeinn hefur verið í meðhöndlun hjá læknum íslenska liðsins en nú er endanlega komið í ljós að hann verður ekki með í síðari leiknum í Zagreb á þriðjudag.
Kolbeinn meiddist undir lok fyrri hálfleiks á föstudag og enn er ekki fyllilega komið í ljós hversu alvarleg meiðslin eru. Hann mun verða eftir á Íslandi í nokkra daga í hvíld áður en hann fer aftur til Ajax þar sem hann mun gangast undir segulómskoðun.
Íslenska liðið heldur utan til Króatíu í dag.