Draumurinn úti - Króatar á HM

Draumur Íslendinga um að komast í fyrsta skipti í lokakeppni heimsmeistaramóts karla í knattspyrnu varð að engu í kvöld þegar íslenska liðið tapaði fyrir Króötum, 2:0, í seinni umspilsleik þjóðanna á Maksimir-leikvanginum í Zagreb.

Eftir markalausa jafnteflið á Laugardalsvellinum á föstudagskvöldið var staðan galopin þegar flautað var til leiks í kvöld. Króatar náðu strax undirtökunum, voru sterkari frá byrjun, og Mario Mandzukic kom þeim yfir á 27. mínútu með marki eftir talsverðan sóknarþunga, 1:0.

Hagur Íslands vænkaðist hinsvegar á 38. mínútu þegar Mandzukic fékk rauða spjaldið fyrir að brjóta gróflega á Jóhanni  Berg Guðmundssyni. Íslendingar voru því manni fleiri í 52 mínútur.

En íslenska liðinu tókst ekki að nýta sér liðsmuninn og fékk á sig sannkallað rothögg strax á 2. mínútu síðari hálfleiks þegar fyrirliðinn Darijo Srna skoraði, 2:0, eftir snögga sókn.

Þar með þurfti Ísland að skora tvívegis og það var aldrei í spilunum. Króatar vörðust vel og örugglega í seinni hálfleiknum og fengu síðan góð færi til að bæta við markatöluna eftir snöggar sóknir en Hannes Þór Halldórsson varði þá nokkrum sinnum mjög vel.

Króatar eru því á leiðinni á heimsmeistaramótið í Brasilíu næsta sumar en þátttöku Íslands er lokið að sinni, eftir besta árangurinn í sögu íslenska landsliðsins.

Króatía 2:0 Ísland opna loka
90. mín. Uppbótartíminn eru þrjár mínútur. Þetta er búið spil, því miður.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert