„Þarna verða afskaplega óvinveittir áhorfendur þannig það er um að gera hvetja fólk til að fara varlega,“ segir Sigurður Hannesson, faðir knattspyrnumannsins Hannesar Þ. Sigurðssonar, og eftirlitsmaður KSÍ til 16 ára um hvers íslensku strákarnir og ekki síst íslenskir áhorfendur mega vænta á Maksimir-vellinum í Zagreb í kvöld.
Ekki var búið að selja nema 13.000 miða á völlinn í gær en hann tekur rétt ríflega 38.000 manns í sæti. Króatar eru þó vongóðir um að miðasala taki kipp í dag.
Sigurður hefur sjálfur upplifað stemninguna á Maksimir-vellinum þegar hann var eftirlitsmaður á leik Dinamo Zagreb og Hearts frá Skotlandi. „Þar voru menn með blys og annað sem er auðvitað bannað en menn hafa ýmsar leiðir til að koma því inn. Þarna er alveg afskaplega ströng öryggisgæsla. Allt öðruvísi gæsla en við erum vön en alveg lífsnauðsynleg,“ segir Sigurður.
Hann býst fastlega við að áhorfendur verði í mikilli gæslu lögreglunnar en biðlar til Íslendinga um að fara varlega og ekki bjóða upp í neinn óþarfa dans.
„Helst verða menn að vera með augu í hnakkanum. Án þess að maður þori að segja of mikið þá verður fólk bara fara varlega og helst vera í hópum. Það verður að passa að vera ekki að ógna króatísku stuðningsmönnunum eða vera með ögrandi bendingar. Það fá menn bara tvöfalt til baka. Bara alls engin fíflalæti,“ segir Sigurður Hannesson.