Lagerbäck: Hef notið hverrar mínútu með liðinu

Lars Lagerbäck.
Lars Lagerbäck. mbl.is/Ómar

Lars Lagerbäck þjálfari íslenska landsliðsins í knattspyrnu gat ekki leynt vonbrigðum sínum eftir ósigurinn gegn Króötum í Zagreb í kvöld.

„Ég er auðvitað vonsvikinn eins og leikmennirnir allir. Við vorum svo nálægt því að komast í lokakeppni HM en það eru líklega tvær ástæður fyrir því hvers vegna við spiluðum ekki vel hér í kvöld. Menn voru greinilega taugaóstyrkir, við gerðum við okkur seka um allt of mörg mistök. Það var mikið um lélegar sendingar og við náðum ekki að spila okkar leik. Króatarnir áttu hins vegar mjög góðan leik og þeir sýndu að þeir hafa á að skipa einu af besta liði í heimi. Þeir létu okkur oft líta illa út. Þrátt fyrir þessa niðurstöðu er ég ákaflega stoltur af liðinu. Leikmennirnir hafa verið frábærir og þeir verða að læra af þessari reynslu,“ sagði Lagerbäck við mbl.is eftir leikinn í kvöld.

„Liðið er ungt að árum og það er ekki spurning að framtíð íslenska landsliðið lítur vel út. Í kvöld spilaði liðið ekki af eðlilegri getu. Auðvitað kviknuðu vonir í brjósti mér þegar Króatarnir misstu mann af velli. Í leikhléinu var mikill hugur í mönnum en það var síðan mikið áfall að fá annað markið á okkur eftir aðeins tvær mínútur í seinni hálfleik. Við misstum boltann á vondum stað og var refsað fyrir það. Lið má ekki gera slík mistök sem ætlar sér á HM og sérstaklega ekki á móti liði eins og Króatar eru með. Við reyndum eftir fremsta megni að svara fyrir okkur en því miður tókst það ekki. Króatarnir voru líka betri en við þrátt fyrir að vera manni færri. Ég óska þeim til hamingju,“ sagði Lars.

„Þetta er búinn að vera virkilega skemmtilegur tími með landsliðinu. Leikmennirnir hafa brugðist vel við öllu og hugarfar þeirra er til fyrirmyndar. Ég sem þjálfari er ánægður að sjá þær framfarir sem hafa orðið á liðinu á milli ára og þá sérstaklega á undanförnum mánuðum. Ég er hreykinn af frammistöðu liðsins í undankeppninni.“

Nú er samningur þinn við KSÍ útrunninn. Hvað tekur nú við?

„Við gerðum samkomulag ég og Geir og Þórir að eftir þessa tvo leiki myndum við setjast niður. Við skulum sjá hvað verður. Ég hef notið hverrar mínútu með liðinu og að vinna með því. Nú þarf ég að líta í spegil og spyrja mig að því hvort ég sé orðinn of gamall eða ekki. Þetta er spurningin en ég held að ef ekkert alveg sérstakt komi upp þá held ég að ef ég þjálfa áfram þá verði það íslenska landsliðið. Framtíð mín mun ráðast fljótlega.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert