Lagerbäck og Heimir áfram með landsliðið

Lars Lagerbäck á fundinum í dag.
Lars Lagerbäck á fundinum í dag. mbl.is/Golli

Lars Lagerbäck verður áfram þjálfari karlalandsliðs Íslands í knattspyrnu en Heimir Hallgrímsson mun nú stýra liðinu til jafns við Lagerbäck eftir að hafa verið aðstoðarmaður hans síðustu tvö ár. Þetta var kynnt á fundi sem nú stendur yfir í húsakynnum Knattspyrnusambands Íslands.

Geir Þorsteinsson formaður KSÍ staðfesti þetta í fundarbyrjun nú rétt í þessu.

Undir stjórn Svíans náði Ísland sínum besta árangri frá upphafi í nýlokinni undankeppni heimsmeistaramótsins þar sem liðið komst í umspil um sæti á HM í Brasilíu en beið þar lægri hlut fyrir Króötum.

Lagerbäck er 65 ára gamall og þjálfaði áður landslið Svía um árabil og fór með það á mörg stórmót, og stýrði síðan landsliði Nígeríu í lokakeppni HM árið 2010.

Þeir eru ráðnir til tveggja ára og stýra því liðinu í undankeppninni fyrir Evrópumótið sem fram fer í Frakklandi 2016 en hún hefst haustið 2014.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert