Ísland í fimmta styrkleikaflokki

Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson eru þjálfarar íslenska landsliðsins.
Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson eru þjálfarar íslenska landsliðsins. mbl.is/Kristinn

Ísland er í fimmta styrkleikaflokki fyrir dráttinn í Evrópukeppni karlalandsliða í knattspyrnu 2016 en dregið verður 23. febrúar. Þetta var staðfest núna í hádeginu en þá voru styrkleikaflokkarnir formlega gefnir út.

Góður árangur íslenska landsliðsins í síðustu undankeppni HM náði ekki að lyfta liðinu nema í efsta sætið í fimmta flokki en Ísland var í sjötta og neðsta styrkleikaflokki þegar dregið var fyrir þá undankeppni.

Þjóðirnar í 5. flokki, sem Ísland getur þar með ekki mætt, eru þessar: Ísland, Norður-Írland, Albanía, Litháen, Moldóva, Makedónía, Aserbaídsjan, Georgía og Kýpur.

Dregið verður eitt lið úr hverjum styrkleikaflokki í hvern riðil. Ísland mun því mæta einu liði úr hverjum eftirtalinna flokka:

1. flokkur: Spánn, Þýskaland, Holland, Ítalía, England, Portúgal, Grikkland, Rússland, Bosnía.

2. flokkur: Úkraína, Króatía, Svíþjóð, Danmörk, Sviss, Belgía, Tékkland, Ungverjaland, Írland.

3. flokkur: Serbía, Tyrkland, Slóvenía, Ísrael, Noregur, Slóvakía, Rúmenía, Austurríki, Pólland.

4. flokkur: Svartfjallaland, Armenía, Skotland, Finnland, Lettland, Wales, Búlgaría, Eistland, Hvíta-Rússland.

6. flokkur: Lúxemborg, Kasakstan, Liechtenstein, Færeyjar, Malta, Andorra, San Marínó, Gíbraltar.

Einn riðillinn verður með fimm liðum, þar sem átta þjóðir eru í sjötta styrkleikaflokki en níu í hinum. Frakkland mun leika sem gestaþjóð í þeim riðli en Frakkar verða á EM 2016 sem gestgjafar og þeirra leikir verða þar með ekki reiknaðir með í stigum.

Alls eru 23 sæti í boði í lokakeppninni 2016 en liðum er nú fjölgað úr 16 í 24. Tvö efstu liðin í hverjum riðli komast beint á EM, sem og liðið sem nær bestum árangri í rþriðja sæti. Hin átta liðin í þriðja sæti riðlanna fara í umspil um fjögur EM-sæti.

Undankeppnin hefst 7. september á þessu ári og henni lýkur í október 2015. Fjórar umferðir verða spilaðar í haust og sex umferðir á næsta ári. Umspilið um síðustu fjögur sætin fer síðan fram í nóvember 2015.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert