Lagerbäck: Slæmt að menn séu ekki að spila

Aron Einar Gunnarsson hefur oftast þurft að verma varamannabekkinn hjá …
Aron Einar Gunnarsson hefur oftast þurft að verma varamannabekkinn hjá Cardiff að undanförnu. mbl.is/Ómar

Lars Lagerbäck annar landsliðsþjálfara Íslands í knattspyrnu segir vitaskuld alltaf slæmt þegar leikmenn liðsins spili minna en ella með sínum félagsliðum en nokkrir af lykilmönnum Íslands hafa átt erfitt uppdráttar hjá sínum liðum undanfarnar vikur og mánuði.

„Það er aldrei gott að leikmenn séu ekki að spila,“ sagði Lagerbäck þegar mbl.is spurði út í stöðu fyrirliðans Arons Einars Gunnarssonar hjá Cardiff. Aron hefur ekki verið í byrjunarliði liðsins síðasta mánuðinn og virðist ekki byrjunarliðsmaður í huga Oles Gunnars Solskjær sem tók við Cardiff í byrjun árs.

„Það er kominn inn nýr stjóri hjá félaginu með nýja leikmenn. Það verður reyndar forvitnilegt að sjá hvað gerist því Solskjær er í erfiðri stöðu og ef hann heldur áfram að tapa þá veit ég ekki hvað gerist. Ég vona að hann geri sér grein fyrir því að liðið þarf reyndari leikmenn eins og Aron,“ sagði Lagerbäck, en benti jafnframt á að Aron hefði glímt við veikindi um skamman tíma.

Auk Arons hafa leikmenn á borð við Gylfa Þór Sigurðsson og Kolbein Sigþórsson átt erfitt uppdráttar að undanförnu. Gylfi hefur verið meiddur að undanförnu og ekki spilað 90 mínútna leik á árinu. Hann hefur einu sinni verið í byrjunarliði Tottenham á árinu. Kolbeinn hefur skorað tvö mörk í 12 leikjum frá því að hann meiddist í fyrri landsleiknum við Króatíu í nóvember. Þá hefur Birkir Bjarnason ekki spilað eina einustu mínútu fyrir Sampdoria síðustu 40 daga, og aðeins byrjað þrjá leiki frá landsleikjunum við Króatíu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert