Heimir Hallgrímsson annar þjálfara íslenska landsliðsins í knattspyrnu var auðvitað ekki sáttur að sjá íslenska liðið tapa fyrir Wales í kvöld en hann sagðist þó hafa séð marga jákvæða hluti í liðinu.
„Við vorum ánægðir með fyrri hálfleikinn af okkar hálfu. Það sem við lögðum upp með í leiknum gekk alveg upp í fyrri hálfleik. Við ætluðum að verjast þeim framarlega og taka vörnina okkar aðeins framar. Mér fannst við hafa frumkvæðið í fyrri hálfleik og við áttum frekar auðvelt með að þvinga Walesverjana í taka langar sendingar og að halda boltanum innan liðsins,“ sagði Heimir við mbl.is.
„Við vildum helst halda þessum leik áfram í seinni hálfleik en við vissum að það tæki toll að halda uppi hápressu í 90 mínútur. Við þreytu og skiptingar komu opnanir sem að leikmenn eins og Bale nýttu sér í botn og að mínu mati var það Bale sem skildi á milli þessara liða.“
Svona eftir á að hyggja. Fannst þér hann leika of lausum hala eða er ekki hægt að stöðva hann?
„Hann er klókur. Hann hafði sóknarfrelsi og leyfði sér að svindla í varnarleiknum. Það er erfitt að verjast honum þegar hann fær stór svæði og Ari Freyr fékk ekki auðvelt hlutverk. Þetta fer í reynslubankann hjá honum,“ sagði Heimir.
Heimir segir að auðvitað spili það inní að lykilmenn í landsliðinu hafi ekki spilað mikið með sínum félagsliðum.
„Ég held að það hafi sést í leiknum að leikmenn sem eru þekktir fyrir dugnað og kraft náðu ekki að halda út í 90 mínútur. Það var samt gott að gefa þeim heilan leik en við þurfum að leyfa mönnum að sanna sig fyrir sínum þjálfurum. Það þarf engan speking að sjá að það dró töluvert af liðinu þegar leið á seinni hálfleikinn.
Við vitum að það er verk að vinna og vitum það líka að það verður aldrei auðvelt fyrir Ísland að vinna fótboltaleiki. Wales er í þeim styrkleikaflokki að við verðum að vinna þannig lið ef við ætlum okkur að komast í úrslitakeppni. Ég sá margt mjög jákvætt í okkar leik eins og varnarleikurinn í fyrri hálfleik. Við vorum ánægðir með Theódór Elmar í bakvarðarstöðunni sem spilaði vel og Sölvi Geir hefur litið mjög vel út í þessari ferð og gaman að sjá að hann er að detta í gott stand aftur,“ sagði Heimir Hallgrímsson