Ísland mátti þola stórt tap gegn Evrópumeisturum Þýskalands í fyrsta leik sínum í Algarve-bikarnum í fótbolta í dag, 5:0.
Íslenska liðið átti ekki roð í hið gríðarsterka lið Þjóðverja í dag. Dzsenifer Marozsán kom Þýskalandi í 2:0 um miðjan fyrri hálfleik og rétt fyrir lok hans bætti Celia Sasic þriðja markinu við úr vítaspyrnu sem dæmd var á Guðbjörgu Gunnarsdóttur. Sasic hafði áður lagt upp bæði mörk Marozsán.
Lena Goessling bætti við fjórða markinu snemma í seinni hálfleik með frábæru skoti úr vítateigsboganum, og Alexandra Popp skoraði fimmta markið þegar enn voru 25 mínútur eftir en þar við sat.
Nadine Angerer markvörður Þýskalands þurfti varla að snerta boltann í leiknum enda var lítið um sóknarleik af hálfu íslenska liðsins. Varnarleikurinn var sömuleiðis gloppóttur og hefðu Evrópumeistararnir hæglega getað bætt við fleiri mörkum.
Næsti leikur Íslands er gegn Noregi á föstudaginn og lokaleikurinn í riðlinum er svo gegn Kína á mánudaginn. Kína vann Noreg 1:0 í dag.