Lögðu Noreg að velli á Algarve

Katrín Ómarsdóttir hjálpar Þóru B. Helgadóttur að mynda töluna 100 …
Katrín Ómarsdóttir hjálpar Þóru B. Helgadóttur að mynda töluna 100 til marks um 100. landsleik Þóru sem hún spilaði í dag. Ljósmynd/KSÍ

Harpa Þorsteinsdóttir tryggði Íslandi góðan 2:1-sigur á Noregi á Algarve-mótinu í knattspyrnu í dag. Ísland er því með 3 stig eftir 2 leiki í A-riðli en Norðmenn ekkert.

Norðmenn voru ívið betri í fyrri hálfleik en Ísland hóf seinni hálfleikinn af krafti og Mist Edvardsdóttir skoraði sitt fyrsta landsliðsmark í byrjun hans með skalla, eftir hornspyrnu Hallberu Guðnýjar Gísladóttur. Norðmenn jöfnuðu metin úr vítaspyrnu þegar um tíu mínútur voru til leiksloka en Harpa sá til þess að Ísland færi með sigur af hólmi þegar hún skoraði úr teignum eftir aukaspyrnu Hallberu.

Í lokaumferð riðlakeppninnar mætir Ísland liði Kína á mánudaginn en Kínverjar unnu Noreg 1:0 í fyrstu umferðinni á sama tíma og Ísland tapaði 5:0 fyrir Þýskalandi. Kína og Þýskaland mætast síðar í dag. Vinni Kína ekki þann leik er ljóst að Noregur endar í neðsta sæti A-riðilsins.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

90. Leik lokið. Ísland fagnar góðum sigri á Noregi og fer með 3 stig inn í lokaleikinn við Kína.

85. MARK! (2:1) Ísland ekki lengi að svara fyrir sig. Hallbera átti aukaspyrnu utan af kanti og skrúfaði boltann inn að marki. Boltinn skoppaði á milli manna áður en hann barst til Hörpu Þorsteinsdóttur sem skilaði honum í netið og kom Íslandi yfir á nýjan leik. Hennar annað landsliðsmark.

82. MARK! (1:1) Norðmenn jöfnuðu metin úr vítaspyrnu eftir að Sara Björk Gunnarsdóttir braut á Maritu Skammelsrud Lund innan teigs. Lene Mykjåland skoraði úr spyrnunni. 

68. Dagný Brynjarsdóttir komst í fær fyrir Ísland eftir hornspyrnu en skaut yfir markið. Rakel Hönnudóttir er komin inná fyrir Katrínu Ómarsdóttur.

63. Sara Björk Gunnarsdóttir átti skot úr fínu færi í teignum rétt framhjá marki Norðmanna.

61. Ísland hefur fengið ágætis færi eftir markið og Norðmönnum gengur illa að svara fyrir sig. Dagný Brynjarsdóttir er komin inn á fyrir Þórunni Helgu Jónsdóttur og nú var Harpa Þorsteinsdóttir að koma inn á í stað hinnar ungu Elínar Mettu Jensen sem hefur staðið sig vel í fremstu víglínu.

50. Þetta var fyrsta landsliðsmark Mistar en hún er að spila sinn 11. A-landsleik. Mist er 23 ára gamall miðvörður sem mun leika með Val í Pepsi-deildinni í sumar eftir að hafa leikið í Noregi og Brasilíu.

48. MARK! (1:0) Ísland er komið yfir! Hallbera Guðný Gísladóttir tók hornspyrnu og sendi boltann inn á miðjan teiginn þar sem Mist Edvardsdóttir reis hæst allra og skallaði boltann í fjærhornið. Áður hafði Ísland átt aukaspyrnu sem fór í stöng og út. Frábær byrjun á seinni hálfleiknum.

46. Seinni hálfleikur hafinn.

45. Hálfleikur. Staðan er enn markalaus. Norðmenn hafa verið betri aðilinn en ekki skapað sér mörg færi og hvað þá fundið leiðina fram hjá Þóru B. Helgadóttur í hennar 100. landsleik.

30. Íslenska liðið er að komast betur inn í leikinn og ná að halda boltanum. Rétt í þessu náði Elín Metta að leika boltanum upp að endamörkum og koma fínni sendingu fyri rmarkið en þar var enginn mættur til að taka við boltanum. Glódís Perla og Elise Thorsnes skullu saman í skallabaráttu og lá sú norska eftir en þær virðast báðar geta haldið áfram leik.

20. Norðmenn ógna meira og fengu tvö færi í röð en Ísland bjargaði á marklínu.

15. Staðan er enn markalaus og hvorugt liðið hefur skapað sér færi svo heitið geti enn sem komið er. Norðmenn eru meira með boltann en leikurinn fer rólega af stað. 

1. Leikur hafinn. Þá er boltinn farinn að rúlla í blíðviðrinu á Algarve.

0. Átta breytingar eru á byrjunarliði Íslands frá tapinu gegn Þýskalandi en Freyr Alexandersson þjálfari gaf það út fyrir mótið að hann myndi láta sem flesta leikmenn spreyta sig í mótinu svo það kemur ekki á óvart.

0. Maren Mjelde er á miðjunni hjá Noregi en hún er liðsfélagi Guðbjargar Gunnarsdóttur hjá Potsdam. Flestir leikmenn norska hópsins spila í Noregi, þar af 14 með Lilleström eða Stabæk.

0. Liðin mættust á EM í Svíþjóð síðasta sumar og gerðu þá 1:1 jafntefli. Kristine Hegland kom Noregi yfir en Margrét Lára Viðarsdóttir jafnaði metin úr vítaspyrnu undir lokin eftir að brotið var á Söru Björk Gunnarsdóttur.

0. Þóra Björg Helgadóttir leikur í dag sinn 100. A-landsleik og ber fyrirliðabandið af því tilefni.

Ísland: (4-5-1) Mark: Þóra Björg Helgadóttir. Vörn: Anna María Baldursdóttir, Glódís Perla Viggósdóttir, Mist Edvardsdóttir, Hallbera G. Gísladóttir. Miðja: Fanndís Friðriksdóttir, Þórunn Helga Jónsdóttir, Dóra María Lárusdóttir, Sara Björk Gunnarsdóttir, Katrín Ómarsdóttir. Sókn: Elín Metta Jensen.

Noregur: (4-3-3) Mark: Silje Vesterbekkmo. Vörn: Lene Mykjåland, Marita Skammelsrud Lund, Nora Holstad Berge, Andrine Tomter. Miðja: Maren Mjelde, Cathrine Dekkerhus, Ingvild Isaksen. Sókn: Melissa Bjånesøy, Elise Thorsnes, Kristine Minde.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert