Halldór Orri samdi við Falkenberg

Halldór Orri Björnsson.
Halldór Orri Björnsson. mbl.is/Árni Sæberg

Halldór Orri Björnsson, knattspyrnumaður úr Stjörnunni, hefur samið við sænska úrvalsdeildarfélagið Falkenberg og yfirgefur því Garðabæjarliðið eftir að hafa spilað með því allan sinn feril.

Þetta kemur fram á vef Stjörnunnar og sagt að hann haldi utan á næstu vikum. Falkenberg er nýliði í sænsku úrvalsdeildinni og spilar þar í fyrsta skipti í sögunni á komandi keppnistímabili.

Halldór Orri er 27 ára gamall og tók þátt í því að koma Stjörnunni uppí úrvalsdeildina 2008 og hefur spilað þar með liðinu síðan. Hann hefur spilað 106 leiki með félaginu í deildinni, næstflesta af öllum Stjörnumönnum frá upphafi, og á markamet félagsins í deildinni, 47 mörk. Halldór Orri á einn A-landsleik að baki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert