Miðjumaðurinn öflugi Farid Zato mun leika með Íslandsmeisturum KR á komandi keppnistímabili í Pepsi-deildinni í knattspyrnu. Knattspyrnudeildir KR og Þórs sendu frá sér yfirlýsingu varðandi málið í dag.
Bæði félög töldu sig hafa samið við leikmanninn í lok síðasta mánaðar og fór KSÍ þess á leit við þau að finna sjálf lausn á málinu. Félögin höfðu frest út daginn í dag til þess og nú er orðið ljóst að samkomulag hefur náðst.
Yfirlýsingu félaganna má sjá hér að neðan.
SAMEIGINLEG YFIRLÝSING
KNATTSPYRNUDEILDA KR OG ÞÓRS AKUREYRI
Fjölmiðlar hafa undanfarna daga flutt fréttir af væntum félagaskiptum Abdel Farid Zato Arouna frá Tógó, annaðhvort í Þór Akureyri eða í KR. Bæði lið áttu í viðræðum við leikmanninn og hans uppeldisfélag í Togo.
Félögin hafa átt í viðræðum undanfarna daga um lausn málsins og er niðurstaða þeirra að leikmaðurinn semji við KR og verði leikmaður þess á komandi sumri. Viðræðurnar fóru fram í fullri vinsemd félaganna.
Reykjavík, 12. mars 2014,
Kristinn Kjærnested, formaður knattspyrnudeildar KR
Aðalsteinn Pálsson, formaður knattspyrnudeildar Þórs Akureyri