Breiðablik sigraði Aftureldingu, 4:0, í lokaleik 1. riðils Lengjubikars karla í knattspyrnu sem fram fór í Fífunni í kvöld.
Tveir leikmenn Breiðabliks voru reknir af velli, Damir Muminovic eftir aðeins 15 mínútna leik og Jordan Halsman eftir 70 mínútna leik.
Tíu Blikar skoruðu hinsvegar þrívegis á 20 mínútna kafla og þar var Árni Vilhjálmsson að verki í öll skiptin, 3:0.
Undir lokin náðu svo níu Blikar að bæta við fjórða markinu og þar var Elvar Páll Sigurðsson á ferðinni.
Fyrir leik var Breiðablik komið í átta liða úrslit og endaði með 15 stig í riðlinum en KR vann hann með 16 stig. Keflavík fór líka áfram með 11 stig í þriðja sæti. ÍA og Grindavík fengu 10 stig, Fram 9, Afturelding 4 og BÍ/Bolungarvík 2 stig.
Breiðablik mætir Víkingi R. í átta liða úrslitunum á miðvikudagskvöldið og þá mætast einnig Stjarnan - Þór og FH - Keflavík. Loks eigast KR og Fylkir við á fimmtudaginn.
KA vann HK, 3:2, í síðasta leiknum í 3. riðli í Boganum á Akureyri. Kristján Freyr Óðinsson, Gunnar Örvar Stefánsson og Ólafur Hrafn Kjartansson skoruðu fyrir KA en Guðmundur Atli Steinþórsson og Axel Kári Vignisson fyrir HK.