Komast Þórsarar í úrslit í fyrsta skipti?

Ármann Pétur Ævarsson fremstur í flokki Þórsara en fyrir aftan …
Ármann Pétur Ævarsson fremstur í flokki Þórsara en fyrir aftan hann Þórður Birgisson, Jóhann Helgi Hannesson og Atli Jens Albertsson í leiknum gegn Keflavík í átta liða úrslitunum. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Undanúrslitin í deildabikar karla í knattspyrnu, Lengjubikarnum, verða leikin í dag þegar KR og FH eigast við á gervigrasvelli KR-inga klukkan 15 og Þór tekur á móti Breiðabliki í Boganum á Akureyri klukkan 16.

KR og FH hafa slegist um stóru titlana undanfarin ár og þau eru líka sigursælustu félögin í sögu deildabikarsins með fimm sigra hvort. KR vann síðast árið 2012 og einnig 2010 en FH stóð síðast uppi sem sigurvegari í keppninni árið 2009.

Breiðablik er hinsvegar ríkjandi deildabikarmeistari eftir að hafa sigrað Val, 3:2, í úrslitaleik keppninnar síðasta vor. Það var þriðji úrslitaleikur Blika á fimm árum en þeir höfðu áður beðið lægri hlut fyrir bæði KR og FH í úrslitaleikjum.

Þórsarar eiga möguleika á að komast í úrslitaleik keppninnar í fyrsta skipti í sögunni en hvorugu Akureyrarliðanna hefur til þessa tekist að ná svo langt í deildabikarnum.

Þór og Breiðablik eru einu taplausu liðin í keppninni en bæði fóru þau án ósigurs í gegnum riðlakeppnina og lögðu svo Keflavík og Víking R. að velli í átta liða úrslitunum. KR og FH hafa tapað einum leik hvort, KR fyrir Fram í fyrstu umferð riðlakeppninnar en FH fyrir Þór í lokaumferðinni.

Sigurliðin í dag mætast síðan í úrslitaleik keppninnar á Samsungvellinum í Garðabæ á fimmtudagskvöldið kemur, sumardaginn fyrsta, klukkan 19.00.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert