Kassim Doumbia, knattspyrnumaður frá Malí, gekk í dag til liðs við FH-inga sem sömdu við hann til tveggja ára. Hann hefur verið til reynslu hjá FH undanfarið og spilaði æfingaleik með liðinu fyrir skömmu.
Doumbia er 23 ára gamall og leikur sem miðvörður eða miðjumaður, en gert er ráð fyrir honum í varnarhlutverki hjá Hafnarfjarðarliðinu. Hann hefur verið í Belgíu frá 17 ára aldri, var þar fyrst í röðum Gent en spilaði ekki með aðalliðinu og var lánaður til B-deildarliðsins FC Brussels þar sem hann spilaði 29 deildaleiki tímablið 2010-11.
Hann gekk síðan til liðs við Waasland-Beveren sumarið 2011 og tók þátt í að koma liðinu upp í efstu deild á fyrsta tímabili. Þá lék hann 27 deildaleiki og skoraði eitt mark.
Doumbia hefur síðan verið í röðum Waasland-Beveren í efstu deild undanfarin tvö tímabil. Í fyrra spilaði hann 13 leiki í deildinni og skoraði eitt mark en á tímabilinu sem nú er að ljúka fékk hann aðeins tækifæri í þremur deildaleikjum. Doumbia kom inná sem varamaður í síðasta leik liðsins, gegn Gent á laugardaginn, og spilaði þá síðustu 15 mínúturnar.