„Ég vissi að FH hafði ekki náð að vinna KR á síðustu leiktíð og Heimir þjálfari var búinn að segja að ég yrði að vera sterkur og að við yrðum að vinna vel saman. Þetta var auðvitað mjög mikilvægur leikur fyrir okkur sem gæti skipt sköpum í baráttunni um titilinn,“ sagði malíski miðvörðurinn Kassim Doumbia sem átti sannkallaðan stórleik í vörn FH þegar liðið vann Íslandsmeistara KR 1:0 í fyrrakvöld. Doumbia er leikmaður 3. umferðar í Pepsi-deildinni að mati Morgunblaðsins.
„Ég reyni að gera mitt besta fyrir liðið í hverjum einasta leik og bæta mig með hverjum leik. Þetta var mjög erfiður leikur. Það er vont að spila á gervigrasinu og þeir pressuðu stöðugt á okkur,“ sagði Doumbia.
Hann hafði góðar gætur á Gary Martin, framherja KR-inga, en þeir áttu í innbyrðis rimmu allan leikinn þar sem Doumbia fór með sigur af hólmi og það sást vel að Englendingurinn var ekki sáttur. Doumbia skaut fast á KR-inginn:
„Fótbolti er ekki íþrótt þar sem maður spilar eins og einhver dama. Það þýðir ekki að vera alltaf að láta sig detta. Hann var alltaf að láta sig detta án þess að ég snerti hann. Ég skil ekki svona hegðun. Það er ekki rétt að menn reyni að svindla svona og þetta gerði mig mjög reiðan. Hann var alltaf að reyna að koma mér úr jafnvægi, sparka í mig og svona, en ég sagði honum bara að spila fótbolta og svo gætum við talað saman. En ég vann leikinn þannig að mér er sama um allt annað,“ sagði Doumbia.
Doumbia er 23 ára gamall og kom til FH frá Waasland-Beveren í belgísku úrvalsdeildinni. Hann hafði þá leikið í Belgíu frá 18 ára aldri en samdi við FH-inga til tveggja ára. Hvað kom til að hann endaði hérlendis?
Spurningunni er svarað í ítarlegu viðtali við Doumbia í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag og þar má sjá úrvalslið 3. umferðarinnar.