„Það er hrikalega gott að koma aftur en maður hefði viljað vinna leikinn. Við áttum bara ekki góðan dag í dag,“ sagði Fanndís Friðriksdóttir sem flaug heim til Íslands í gær og spilaði í kvöld fyrsta leik sinn með Breiðabliki eftir að hafa gengið í raðir félagsins að nýju.
Blikar gerðu markalaust jafntefli við Fylki í 2. umferð Pepsi-deildarinnar. Fanndís og fleiri leikmenn Blika fengu góð færi til að skora en Fylkismenn óðu sömuleiðis í færum og virtust líklegri til að skora. Fanndís átti meðal annars skalla í þverslá þegar leikurinn var alveg að klárast.