Risasigur Blika og Stjarnan lagði Fylki

Harpa Þorsteinsdóttir úr Stjörnunni sækir að marki Fylkis í leiknum …
Harpa Þorsteinsdóttir úr Stjörnunni sækir að marki Fylkis í leiknum í kvöld. mbl.is/Ómar

Breiðablik skoraði hvorki fleiri né færri en þrettán mörk í kvöld þegar liðið rótburstaði FH í þriðju umferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu í Fífunni.

Kópavogsliðið fór illa með FH strax frá fyrstu mínútu og var komið í 5:0 eftir 18 mínútur. Mörkin urðu átta fyrir hlé og fimm bættust við í seinni hálfleik. FH fékk vítaspyrnu í stöðunni 12:0 en náði ekki að nýta hana. Telma Hjaltalín Þrastardóttir, Rakel Hönnudóttir og Aldís Kara Lúðvíksdóttir skoruðu sína þrennuna hver fyrir Breiðablik, Hlín Gunnlaugsdóttir skoraði tvö mörk og Fanndís Friðriksdóttir eitt, og þá var eitt sjálfsmark. Þórður Jensson þjálfari FH fékk brottvísun snemma í seinni hálfleiknum og verður í banni í næsta leik Hafnarfjarðarliðsins.

Meistarar Stjörnunnar lögðu Fylki, 3:0, og nýliðarnir úr Árbænum fengu þar með fyrstu mörkin á sig en þau komu öll í seinni hálfleik. Maegan Kelly var þar að verki í öll skiptin.

Valur vann nýliða ÍA, 3:0, á Akranesi. Katrín Gylfadóttir skoraði í byrjun leiks og Elín Metta Jensen bætti tveimur mörkum við.

Selfoss sigraði Aftureldingu 3:0 í Mosfellsbæ. Guðmunda Brynja Óladóttir skoraði tvö markanna og Dagný Brynjarsdóttir eitt.

Breiðablik, Valur og Þór/KA eru með 7 stig hvert í toppsætunum, Stjarnan og FH eru með 6 stig, Fylkir 4, Selfoss 3, ÍBV 3, en ÍA og Afturelding eru án stiga.

Smellið á ÍSLENSKI BOLTINN Í BEINNI til að sjá allt sem gerðist í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka