Stjarnan er enn taplaust í Pepsi-deild karla þetta sumarið eftir 1:1 jafntefli við Breiðablik þegar liðin mættust á Kópavogsvelli í kvöld. Blikar eru hins vegar enn án sigurs í deildinni en þetta var síðasti leikur liðsins undir stjórns Ólafs Kristjánssonar sem senn heldur í víking til Danmerkur.
Fyrri hálfleikur var bráðfjörugur og leikurinn opinn í báða enda. Stjarnan skoraði eina mark hans og var þar að verki Niclas Vemmelund sem kom úr bakverðinum og skoraði stórglæsilegt mark utan teigs. Það sannarlega kórónaði skemmtilegan fyrri hálfleik og staðan að honum loknum 1:0 fyrir Garðbæinga.
Nokkurt jafnræði var með liðunum í síðari hálfleik en Stjörnumenn þó ívið sterkari. Blikar sóttu í sig veðrið þegar leið á og Elvar Páll Sigurðsson jafnaði leikinn þegar rétt rúmur stundarfjórðungur var eftir. Blikar gerðu sóknarskiptingu í kjölfarið en voru orðnir manni færri andartaki síðar þegar Árni Vilhjálmsson fékk að líta sitt annað gula spjald.
Stjarnan hafði yfirhöndina það sem eftir lifði leiks án þess þó að skora og jafntefli því niðurstaðan, 1:1. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is auk þess sem nánar verður fjallað um hann í Morgunblaðinu á morgun.
Hægt er að fylgjast með öllu sem gerðist í leikjum kvöldsins í ÍSLENSKI BOLTINN Í BEINNI.