Valskonur á toppinn eftir sigur á Blikum

Hildur Sif Hauksdóttir með boltann á fleygiferð í viðureign Vals …
Hildur Sif Hauksdóttir með boltann á fleygiferð í viðureign Vals og Breiðabliks í kvöld. mbl.is/Eggert

Valur settist í toppsæti Pepsi-deildar kvenna í kvöld með sigri á Breiðabliki, en fjórðu umferð deildarinnar var að ljúka með tveimur leikjum.

Það var stórslagur á Hlíðarenda þegar Valur tók á móti Breiðabliki, en bæði lið gátu skotist á toppinn með sigri. Markalaust var í hálfleik en Svava Rós Guðmundsdóttir, sem kom inn í lið Vals eftir að Rakel Logadóttir meiddist í upphitun, kom heimakonum yfir.

Telma Hjaltalín Þrastardóttir jafnaði metin fyrir Blika með sínu fimmta marki í sumar, en mörk frá Hildi Antonsdóttur og Ólínu G. Viðarsdóttur tryggði Val 3:1 sigur og um leið toppsæti deildarinnar þar sem liðið hefur hagstæðari markatölu en Þór/KA.

Íslandsmeistarar Stjörnunnar gerðu svo góða ferð í Kaplakrika þar sem FH lá í valnum, 4:0. Stjarnan skoraði þrjú mörk á sex mínútna kafla í síðari hálfleik, fyrst Harpa Þorsteinsdóttir áður en ítalska landsliðskonan Marta Carissimi bætti við tveimur mörkum í sínum fyrsta leik fyrir félagið.

Sigrún Ella Einarsdóttir gulltryggði svo 4:0 sigur Stjörnunnar en liðið er nú í þriðja sæti deildarinnar, stigi á eftir toppliðunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert