„Það verður enginn stóridómur felldur út frá þessum leik en ef við getum lært eitthvað af þessu þá er það helst að við verðum að fara með rétt hugarfar inn í hvern einasta leik,“ sagði landsliðsþjálfarinn Heimir Hallgrímsson eftir 1:0 sigurinn gegn Eistlandi á Laugardalsvelli í gærkvöldi. Hann segir það sérstakt áhyggjuefni hvernig liðið hafi mætt til leiks.
„Auðvitað er gott að vinna og halda hreinu og við horfum til þess. Eistar voru þó mun betri en ég bjóst við, þeir voru fastir og kraftmiklir og höfðu það í raun fram yfir okkur. Þetta var hins vegar annar leikurinn í röð þar sem fyrri hálfleikur var ekki nógu góður og við þurfum að skoða það. Mér fannst viðhorfið hjá okkur ekki vera alveg rétt í þessum leik, þá sérstaklega í fyrri hálfleik. Það er ljóst að Ísland vinnur ekki leiki ef menn fara ekki af krafti inn í þá frá fyrstu mínútu. Við þjálfararnir verðum að læra af því og skoða okkar undirbúning,“ sagði Heimir.
Sjá ítarlega umfjöllun um leik Íslands og Eistlands í Morgunblaðinu í dag