Gummi Ben: Gríðarlega spennandi verkefni

Guðmundur Benediktsson var að stýra Breiðabliki í fyrsta skiptið í kvöld þegar hans menn sóttu Fylkismenn heim. Leikurinn var jafn og spennandi og bæði lið hefðu getað fengið stigin þrjú. Jafntefli varð hins vegar niðurstaðan en Guðmundi fannst lið sitt hafa átt meira skilið miðað við færin sem þeir fengu.

„Ég skil sáttur við flesta leiki en ég hefði að sjálfsögðu viljað taka þrjú stig hér í kvöld í Árbænum. Við erum svolítið fúlir yfir því að hafa ekki nýtt þennan fjölda tækifæra sem við fengum til þess að gera út um þennan leik. Ég hefði meiri áhyggjur ef að við hefðum ekki verið að skapa nein færi. Við erum að skapa fín færi og spila mjög vel á köflum sem ég var mjög ánægður með. Menn lögðu allt í leikinn og það er ekkert hægt að fara fram á meira. Stundum dettur hann inn og stundum ekki. Í kvöld var eitt af þessum kvöldum sem að við áttum í erfiðleikum með að „troða“ inn öðru markinu. En við unnum klárlega fyrir því að setja annað markið í þessum leik,“ sagði Guðmundur.

Guðmundur var eins og áður sagði að stýra Blikunum í fyrsta skiptið í kvöld og hafði gaman af.

„Það var spennandi og mjög gaman. Þetta er gríðarlega skemmtilegur hópur sem að leggur mikið á sig. Þetta er gríðarlega spennandi verkefni sem ég hlakka til að takast á við,“ sagði Guðmundur Benediktsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka