Guðmundur: Fengum tækifæri til að eyða þessum leik

Guðmundur Benediktsson var ekki hress í spjalli við blaðamenn eftir að hans menn í Breiðabliki gerðu jafntefli við ÍBV, 1:1. Blikar misstu þar með af kjörnu tækifæri til þess að landa fyrsta sigrinum á tímabilinu.

„Við fengum sannarlega færi, tækifæri og stöður til þess að hreinlega eyða þessum leik. Við vitum það manna best sjálfir að það hefur gengið erfiðlega í upphafi móts, sömuleiðis hjá ÍBV. Að skora fyrsta markið hefði átt að vera gríðarlega mikilvægt í þessum leik, því að annað og þriðja markið hefði getað fylgt í kjölfarið og þá hefðum við klárað þetta. Það er eins og það vanti smá trú í okkur að klára þessa leiki því að fyrir mér voru svo sannarlega tækifæri til þess í dag að hreinlega vaða yfir þá í stöðunni 1:0,“ sagði Guðmundur.

Blikar hafa nú gert sex jafntefli í átta leikjum og það hefur smá áhrif á sálarlíf leikmanna að mati Guðmundar.

„Það hlýtur að hafa smá áhrif. Við verðum hins vegar að vera jákvæðir. Við erum ekki að tapa mörgum leikjum. Það er hægt að líta á það þannig, en samt sem áður þurfum við að fara að vinna leiki og fá fleiri stig á töfluna. Þetta er of lítið og hér á heimavelli eigum við að vinna okkar leiki. Þess vegna er þetta sérstaklega súrt í dag að ná ekki í sigur. Talandi um að vera súr eftir leik, þá vorum við það klárlega í síðustu umferð eftir að hafa komið úr Árbænum þar sem við fengum fjölda tækifæra til að klára leikinn en þar gerðum við bara eitt mark og í dag gerum við einnig bara eitt mark. Það dugar ekki til eins og við erum að spila núna af því að við erum að hleypa inn skítamörkum,“ sagði Guðmundur súr á svip.

Mark Eyjamanna kom nánast eins og þruma úr heiðskíru lofti. Löng sending kom fram frá Brynjari Gauta í vörn ÍBV og Gunnleifur Gunnleifsson og miðverðir Blika, þeir Damir Muminovic og Elfar Freyr, gerðu sig seka um slæma varnarvinnu.

„Þetta var langur bolti sem við leyfðum að skoppa fyrir framan vörnina. Það er ekki í boði í meistaraflokki. Þú lætur ekki boltann skoppa til þess að athuga hvort þú getir náð honum næst. Það þarf bara að koma þessu burt og við brenndum okkur illa á því í dag,“ sagði Guðmundur Benediktsson, sem leitar enn að sínum fyrsta sigri sem stjóri Breiðabliks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert