Mist Edvardsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu og leikmaður Vals, verður frá keppni um óákveðinn tíma, en á dögunum greindist hún með krabbamein í eitlum og í vikunni byrjar hún í lyfjameðferð sem stendur yfir næstu mánuðina. Greinst hefur æxli í hálsi Mistar sem er farið að valda henni erfiðleikum.
„Það var í lok maí sem grunur fór að beinast að þessu. Þá var ég búin að fara í tölvusneiðmynd og ómskoðun og svo ég fékk það staðfest föstudaginn 6. júni eftir að hafa farið í sýnatöku að um eitlakrabbamein væri að ræða. Það var vitanlega sjokk fyrir mig að fá þessar fréttir og manni leið ekkert vel fyrsta daginn. Það hjálpar hins vegar ekkert að spá í það af hverju maður fái svona leiðindaverkefni til að takast á við. Ég hugsa bara um þetta sem verk sem ég þarf að klára,“ sagði Mist í samtali við Morgunblaðið þar sem hún var stödd á Strikinu í Kaupmannahöfn.
Sjá nánar viðtalið við Mist í heild sinni í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag