Árni: Gaman að gefa Gulla þrjú stig

Árni Vilhjálmsson var öflugur í liði Breiðabliks í kvöld þegar liðið lagði Val að velli, 2:1. Elfar Árni Aðalsteinsson skoraði bæði mörkin í fyrri hálfleik eftir sendingu frá Árna, en þurfti síðan að fara af velli í hálfleik eftir að hafa fengið höfuðhögg. Það er þó í lagi með hann.

„Það var ekki höfuðhöggið sem var málið heldur eitthvað annað, en hann verður klár í næsta leik. Við þekkjum hvor annan vel og finnst þægilegt að spila saman, eins og öllu liðinu,“ sagði Árni við mbl.is eftir leik.

Markvörðurinn og aldursforseti liðsins Gunnleifur Gunnleifsson fagnaði afmælinu sínu í dag og það beið kaka eftir liðinu inni í klefa. „Ég held hann sé orðinn 62ja núna. Það var gaman að geta gefið honum þrjú stig í dag. Strákarnir fá að njóta kökunnar, ég er í aðhaldi,“ sagði Árni Vilhjálmsson glettinn, en nánar er rætt við hann í meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert