Fanndís með þrennu í endurkomu Blika

Fanndís Friðriksdóttir skoraði þrennu gegn ÍBV í kvöld.
Fanndís Friðriksdóttir skoraði þrennu gegn ÍBV í kvöld. mbl.is/Eggert

Níundu umferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu lauk í kvöld með í hörkuleik Breiðabliks og ÍBV í Kópavogi en lokatölur urðu 4:2 þar sem Fanndís Friðriksdóttir skoraði þrennu á síðustu fimmtán mínútum leiksins.

Eyjakonur skoruðu fyrsta mark leiksins en þar var að verki Shaneka Gordon með sitt sjöunda mark í sumar en markið kom á 24. mínútu. Markið var afar fagmannlega afgreitt af Shaneku sem lék á varnarmann Blika áður en hún renndi boltanum á milli lappa Sonný Láru í marki Blika.

Blikakonur voru hins vegar ekki lengi að jafna metin því fimm mínútum eftir mark ÍBV skoraði Jóna Kristín Hauksdóttir með góðu skoti fyrir utan teig eftir þunga sókn Blika og staðan var 1:1 í hálfleik.

Tveir nýir leikmenn voru á varamannabekk ÍBV í dag, þær Ari­ana Calderon og Natasha Anasi. Sú síðarnefnda kom inná í hálfleik og var ekki lengi að setja mark sitt á leikinn því hún skoraði strax á 50. mínútu.

Blikakonur gerðu það sem þær gátu til að jafna leikinn og það tókst á 75. mínútu þegar Fanndís Friðriksdóttur spólaði sig í gegnum vörn ÍBV hægra megin á vellinum, kom sér inn í teig og þrumaði knettinum á nærhornið. Hún var svo aftur á ferðinni á 84. mínútu leiksins og aftur skoraði hún á nærhornið en Blikakonur höfðu sótt ansi stíft á Eyjakonur eftir jöfnunarmarkið. Hún var svo aftur á ferðinni á 90. mínútu þegar hún skoraði sitt þriðja mark, beint úr hornspyrnu eftir mistök Bryndísar Láru í marki ÍBV. Niðurstaðan sanngjarn 4:2 sigur Breiðabliks.

Með sigrinum kemst Breiðablik í 2. sætið og hefur 19 stig en stigin eru ansi dýrmæt í toppbaráttunni við Stjörnuna. Stjörnukonur hafa 24 stig og því var þetta í raun lífsnauðsynlegur sigur fyrir Blikakonur. Eyjakonur sitja áfram í 7. sæti deildarinnar með 12 stig.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

90. LEIK LOKIÐ.

90. Mark 4:2 Blikakonur fá hornspyrnu sem Fanndís Friðriksdóttir tók. Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir var óheppin í markinu og missti boltann inn.

90. Staðan er enn 3:2. Blikarnir virðast ætla að sigla þessu heim.

84. Mark, Staðan er 3:2. Fanndís Friðriksdóttir fær langan tíma til að athafna sig og skorar aftur á nærhornið af stuttu færi hjá Bryndísi Láru í marki ÍBV. Ótrúlegur viðsnúningur Blika!

80. Guðrún Arnardóttir, Bliki í færi eftir hornspyrnu en skalli hennar lak rétt framhjá markinu.

76. Mark, staðan er 2:2. Þarna kom opnunin. Fanndís Friðriksdóttir kom sér algjörlega upp á eigin spýtur inn í teig ÍBV og þrumaði knettinum í nærhornið.

75. Staðan er enn 1:2. Nú hellirignir hér í Kópavoginum en annars er lítið að gerast í leiknum. Blikastúlkur halda boltanum en ná ekki að opna þétta vörn ÍBV.

67. Nú er Blikasóknin orðin ansi þung og þær reyna hvað þær geta til þess að jafna metin. Gengur ekki alveg nógu og vel hjá þeim að skapa sér færi.

63. Staðan er enn 1:2. Lítið að gerast þessa stundina. Blikastúlkur gerði eina skiptingu, Aldís Kara Lúðvíksdóttur fór af velli og inná kom Andrea Rán Hauksdóttir.

57. Blikastúlkur gera hvað þær geta til þess að jafna metin. Fanndís Friðriksdóttir átti hörkuskot en það fór rétt yfir.

50. Mark, staðan er 1:2. Natasha Anasi, nýjasti leikmaður ÍBV er strax búinn að koma sér á blað! Klárar færi sitt virkilega vel en hún slapp ein í gegn eftir frábæra stungusendingu frá Kristínu Ernu Sigurlásdóttur. Alvöru innkoma hjá þessari stelpu!

46. Síðari hálfleikur er hafinn.

45. Natasha Anasi, einn af tveimur nýjum bandarískum leikmönnum ÍBV kemur inná í hálfleik. Þórhildur Ólafsdóttir, fyrirliði ÍBV fer af velli en hún varði fyrir smá hnjaski í fyrri halfleik. Hlynur Svan Eiríksson, þjálfari Blika gerir eina breytingu í hálfleik. Ragna Björg Einarsdóttir kemur af velli og í hennar stað kemur María Rós Arngrímsdóttir.

45.  Hálfleikur hér í Kópavogi. Staðan er enn jöfn 1:1 í hörkuleik þar sem færin hafa heldur betur látið sjá sig en miðað við þennan fyrri hálfleik gæti sigurinn dottið hvorum megin sem er. Þó hafa Blikastúlkur verið ívið sterkari í leiknum og verið meira með boltann.

36. Fanndís þræddi boltann á milli miðvarðar og bakvarðar Eyjakvenna á Aldísi Köru Lúðvíksdóttur sem sendi boltann fyrir á Hlín Gunnlaugsdóttur sem setti boltann ofan á þverslána!

32. ÍBV í góðu færi. Shaneka Gordon hafði leikið á Sonný Láru í marki Blika og var með boltann  upp við marklínuna, nokkuð nærri hornfánanum. Hún sendi boltann út á Fjollu Shala sem náði ekki að athafna sig og Jóna Kristín Hauksdóttir, varnartengiliður Blika stoppaði skotið á síðustu stundu!

29. Mark, staðan er 1:1. Jóna Kristín Hauksdóttir skorar með frábæru skoti fyrir utan teig! Eftir þunga sókn Blika þar sem Fanndís Friðriksdóttir lék vel á Sóleyju GUðmundsdóttir í vinstri bakverðinum og kom knettinum fyrir markið. Eyjastúlkur hreinsuðu boltann beint á Jónu sem skoraði með viðstöðulausu skoti neðst í vinstra markiðhornið. Virklega vel gert.

25. Blikastúlkur hafa verið ívið sterkari það sem af er leiks og meira með boltann. Telma er búinn að fá tvö dauðafæri en klúðraði þeim báðum. Það er dýrt spaug!

24. Mark, staðan er 0:1. Shaneka Gordon skorar eftir frábæra afgreiðslu af stuttu færi þar sem hún lék vel á einn varnarmann Blika. Markið kom upp úr skyndisókn Eyjakvenna, en Blikar vildu einungis mínútu áður fá vítaspyrnu og hendi. Það var hins vegar erfitt að segja til um hvort sú krafa Blikastúlkna væri réttmæt.

14. Bryndís Lára varði hornspyrnu Fanndísar Friðriksdóttur, Blika í þverslána. Þarna munaði engu.

5. Aftur sleppur Telma alein í gegn. Þarna fór hún illa af ráði sínu. Skaut boltanum framhjá. Mjög svo opinn leikur hérna í Kópavoginum. Eyjakonur fengu eitt hálffæri á 4. mínútu en þá skaut Sigríður Lára Garðarsdóttir í varnarmann og framhjá.

3. Fyrsta færi leiksins komið. Telma Þrastardóttir slapp alein í gegn en lét Bryndísi Láru Hrafnkelsdóttur, markvörð ÍBV verja frá sér.

1. Leikurinn er hafinn og Eyjastúlkur hefja leik með boltann og sækja í átt að Fífunni.

17:59  Greta Mjöll Samúelsdóttir, Blikakona og næstum því Eurovision-fari er mætt í stúkuna til að horfa á sitt lið.

17:54 Það styttist í þetta. Fimm mínútur í leik. Liðin hafa hitað upp af krafti og eru nú á leið inn í búningsklefana til þess að heyra síðustu hvatningarorð þjálfaranna.

17:50 Orðið á götunni er að Ariana Calderon, leikmaður ÍBV, sé ekki á landinu en samt á skýrslu. Ef svo er, er ljóst a Jón Ólafur Daníelsson beitir öllum brögðum til þess að rugla andstæðinginn í ríminu.

17:41 ÍBV fékk til sín tvo bandaríska leikmenn í dag, þær Ari­ana Calderon, framherja og Natasha Anasi, varnarmann. Þær eru báðar á bekknum og ljóst er að fróðlegt verður að fylgjast með þeim fái þær tækifærið hjá Jóni Ólafi Daníelssyni, þjálfar Eyjakvenna.

17:00 Byrjunarliðin er klár.

Lið Breiðabliks: Sonný Lára Þráinsdóttur (M), Hlín Gunnlaugsdóttir, Hildur Sif Hauksdóttir, Ragnar Björg Einarsdóttir, Telma Hjaltalín Þrastardóttir, Jóna Kristín Hauksdóttir, Fjolla Shala, Aldís Kara Lúðvíksdóttir, Rakel Hönnudóttir, Fanndís Friðriksdóttir, Guðrún Arnardóttir.

Lið ÍBV: Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir (M), Sóley Guðmundsdóttir, Sara Rós Einarsdóttir, Vesna Elísa Smiljkovic, Sigríður Lára Garðarsdóttir, Þórhildur Ólafsdóttir, Nadia Patricia Lawrence, Kristín Erna Sigurlásdóttir, Shaneka Gordon, Sabrína Lind Adolfsdóttir, Saga Huld Helgadóttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert