Sá hæfileikana strax í yngri flokkunum

Aron Elís Þrándarson, Víkingur, á fullri ferð gegn Haraldi Frey …
Aron Elís Þrándarson, Víkingur, á fullri ferð gegn Haraldi Frey Guðmundssyni, leikmanni Keflavíkur. Styrmir Kári

„Aron er flottur strákur, ég hef þekkt hann lengi og ég þjálfaði hann í yngri flokkum í Víkinni. Maður sá strax hæfileikana og snertingin við boltann hefur alltaf verið til staðar,“ sagði Ingvar Þór Kale, markvörður nýliða Víkings, þegar Morgunblaðið bað hann um að lýsa Aroni Elís Þrándarsyni, samherja hans, sem blaðið valdi besta leikmanninn í fyrri umferð Pepsi-deildar karla.

„Aron er náttúrlega mikilvægur innan vallar en ekki síður utan þar sem hann lætur í sér heyra í klefanum og svo er alltaf stutt í húmorinn,“ sagði Ingvar.

Þrátt fyrir að meiðsli hafi tekið sinn toll var Aron Elís valinn bæði besti og efnilegasti leikmaður 1. deildarinnar í fyrra þegar Víkingur endurheimti sæti sitt í efstu deild eftir þriggja ára fjarveru. Hann skoraði fjórtán mörk í jafnmörgum leikjum í fyrra og hefur haldið uppteknum hætti í markaskorun í sumar þrátt fyrir að hafa verið að stíga upp úr meiðslum og verið frá framan af sumri.

„Hann var svolítið meiddur í upphafi móts en þegar hann hefur verið fullfrískur hefur hann verið alveg frábær. Leikur okkar er gjörbreyttur eftir að hann hefur komið heill inn í liðið og spilið fer mikið í gegnum hann,“ sagði Ingvar sem hefur fulla trú á að hann verði áfram í Víkinni, allavega til loka tímabilsins.

„Ég held hann geri það. Við erum komnir í góða stöðu í deildinni og eins og hann hefur sagt sjálfur þá eru okkur allir vegir færir og við komnir í undanúrslitin í bikarnum að auki. Það eru spennandi tímar framundan í Víkinni og ég hugsa að hann klári tímabilið. Það yrði gríðarleg blóðtaka ef hann færi núna í glugganum.“

Ýtarlegt viðtal við Ingvar um Aron Elís er í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun. Í blaðinu er einnig birt úrvalslið fyrri umferðar Pepsi-deildar karla. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert