Eyjamenn unnu þriðja leik sinn í röð þegar þeir lögðu Fram að velli í Eyjum, 2:0. Eyjamenn hafa þar með losað sig úr fallbaráttunni í bili í það minnsta en með sigrinum fór liðið úr tíunda sæti í það sjöunda og er nú fjórum stigum frá fallsæti. En að sama skapi eykst vandi Safamýrarliðsins, sem nú situr á botni deildarinnar með níu stig, eða jafn mörg og Þór sem er í næstneðsta sæti.
Sigur Eyjamanna var fyllilega verðskuldaður en heimamenn óðu í færum í fyrri hálfleik þegar þeir léku með vindinn í bakið og í sannleika sagt hefðu þeir átt að skora fleiri mörk. Víðir Þorvarðarson kom ÍBV yfir með þrumuskoti úr aukaspyrnu frá miðjum vallarhelmingi Framara en boltinn hafði viðkomu í varnarmanni Fram og þaðan í netið. Staðan í hálfleik var 1:0 en Framarar reyndu hvað þeir gátu til að jafna metin í síðari hálfleik. Í uppbótartíma varð Herði Björgvinssyni, hinum unga markverði Fram, á herfileg mistök sem varð til þess að markahrókurinn Jonathan glenn vann boltann af honum á miðjum vallarhelmingi Fram og skoraði sigurmark Eyjamanna.
Fylgst var með leiknum í beinni textalýsingu hér á mbl.is sem má finna hér fyrir neðan. Ennfremur er fylgst með öllu því helsta í leikjum dagsins hér á mbl.is í ÍSLENSKI BOLTINN Í BEINNI.