FH endurheimti í kvöld toppsætið í Pepsi-deild karla í knattspyrnu af Stjörnunni þegar FH sigraði Breiðablik, 4:2 á Kópavogsvelli. FH hefur 28 stig eftir 12 umferðir en Breiðablik er áfram í 8. sæti með 12 stig.
Leikurinn byrjaði fjörlega og FH-ingar náðu forystunni á 10. mínútu þegar Ingimundur Níels Óskarsson skoraði af stuttu færi eftir sendingu Emils Pálssonar, en aðeins andartaki áður höfðu Blikar átt þunga sókn. Breiðablik svaraði þó strax í sömu mynt og jöfnuðu metin á 11. mínútu með marki Árna Vilhjálmssonar. Elvar Páll Sigurðsson sendi fyrir markið, Árni skallaði á markið en Róbert Örn Óskarsson markvörður FH varði, en hélt ekki boltanum. Árni var nánast lagstur í jörðina þegar hann skallaði svo boltann yfir marklínuna.
En stuðið í fyrri hálfleik var svo sannarlega rétt að byrja. Atli Viðar Björnsson kom FH yfir á ný á 31. mínútu þegar hann fylgdi eftir skalla Emils Pálssonar og Kassim Doumbia jók muninn svo í 3:1 fyrir þegar hann skoraði með föstum skalla á 39. mínútu eftir hornspyrnu Hólmars Arnar Rúnarssonar. Aðeins mínútu síðar var Doumbia svo rekinn af velli eftir að hafa fengið sitt annað gula spjald.
Blikar voru fljótir að nýta sér liðsmuninn og Arnór Sveinn Aðalsteinsson minnkaði muninn í 3:2 þegar hann skallaði frábæra fyrirgjöf Guðjóns Péturs Lýðssonar í stöngina og inn á 44. mínútu.
Það var svo Jón Ragnar Jónsson sem gulltryggði sigur FH þegar hann skoraði fjórða mark Fimleikafélagsins í autt markið eftir að Gunnleifur Gunnleifsson var kominn út úr marki Blika á lokamínútunni, þannig að FH-ingar fögnuðu að lokum eins marks sigri og eru því enn taplausir í Pepsi-deildinni.
Til að fylgjast með öllum leikjum kvöldsins, smellið á ÍSLENSKI BOLTINN Í BEINNI.