Bjarni Guðjónsson þjálfari Fram getur andað léttar, í bili að minnsta kosti, því Fram lyfti sér í kvöld af fallsvæðinu í Pepsí-deild karla.
Fram hefur unnið tvo leiki í röð í deildinni. Fyrst Þór fyrir norðan 2:0 og í kvöld Val 1:0 í Laugardalnum. „Það er miklu þægilegra að vera ekki í fallsæti, annað væri kjánalegt að segja en það er margt eftir og við erum ennþá í harðri samkeppni í neðri hluta deildarinnar. Sú samkeppni er þó skemmtileg og við erum á réttri leið. Leikurinn fyrir norðan gerði mikið fyrir okkur þar sem við unnum á erfiðum útivelli gegn hörkusterku Þórsliði. Hugsanlega voru meiri gæði í þessu Valsliði sem við mættum í dag en við náðum að vinna aftur með svipað upplegg. Það er frábær niðurstaða og hlýtur að skila sér í framhaldinu,“ sagði Bjarni Guðjónsson við fjölmiðlamenn að leiknum loknum í kvöld.
Markvörðurinn Denis Cardaklija fékk tækifæri á miðju tímabili hjá Fram og hefur haldið hreinu tvo leiki í röð. „Allt liðið er að spila mjög fínan varnarleik og við erum þéttir. Hann hefur verið mjög góður enda hefur það ekki verið átakalaust fyrir hann að halda markinu hreinu en hann hefur gert það sem til hefur þurft,“ sagði Bjarni sem sagðist hafa verið enn ánægðari með baráttuna hjá sínum mönnum í kvöld heldur en í sigurleiknum fyrir norðan.